Skoða breytingar á miðbæjarskipulagi meðan beðið er eftir að þjóðvegurinn verði færður
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 29. júl 2025 10:43 • Uppfært 29. júl 2025 10:45
Umhverfis- og framkvæmdaráð hefur ákveðið að ráðast í endurskoðun deiliskipulags miðbæjar á Egilsstöðum til að efla umferðaröryggi og bæta gönguleiðir á meðan beðið er eftir framkvæmdum við þjóðveginn neðan við Söluskála N1.
Í minnisblaði, sem lagt var fyrir nefndina, segir að forsenda þess að hægt sé að vinna eftir skipulaginu sé að vegurinn inn Hérað verði færður og hringtorg gert við gatnamót Fagradalsbrautar. Miðað við gildandi samgönguáætlun er framkvæmdin ekki á áætlun fyrr en á tímabilinu 2029-33.
Á meðan beðið er eftir breytingunum er ekki hægt að hefja framkvæmdir við Nývang, nýja götu sem svo að segja á að liggja í gegnum núverandi bílastæði Söluskálans. Meðfram henni á að byggja upp bílastæði en á móti verður lokað fyrir Fénaðarklöpp fyrir innan Söluskálann. Fyrir ofan bílastæðin, milli Söluskálans og Nettó, stendur til að gera göngugötu og dvalarsvæði.
Í minnisblaðinu segir að erfitt sé að tímasetja framkvæmdir vegna óvissu um samgönguáætlun. Hins vegar kalli íbúar og rekstraraðilar á svæðinu eftir aðgerðum. Þess vegna stendur til að endurskoða deiliskipulagið til að bæta gönguleiðir, efla vistvænar samgöngur og tengja byggingar en um leið að skapa gott dvalarsvæði.
Meðal þess sem stendur til að gera er að breyta vegtengingum frá Fagradalsbraut inn á lóðir N1 og Nettó, miðað við núverandi notkun. Einstefna verður skilgreind inn á lóð Nettó en ekki er talið hægt að gera það hjá N1.
Göngutenging verður hönnuð frá miðbæjarsvæðinu fyrir utan Fagradalsbraut að Fénaðarklöpp. Óbyggðir byggingareitir við Nývang verða teknir út en dvalarsvæði bætt. Fénaðarklöpp verður aftur framlengd miðað við núverandi kerfi og tengd við bílastæði sem þegar eru til.