Skoða fjögurra íbúða nýbyggingu fyrir eldri borgara á Vopnafirði
Líkt og víða annars staðar hefur sumt eldra fólk í sínu eigin húsnæði á Vopnafirði hug á að minnka við sig eftir því sem árin færast yfir. Vopnafjarðarhreppur skoðar nú fýsileika þess að byggja nýtt fjögurra íbúða húsnæði nálægt hjúkrunarheimilinu Sundabúð til að koma til móts við þá aðila.
Sérstakt minnisblað vegna þessa var kynnt bæði á fundum umhverfis- og framkvæmdaráðs og sveitarstjórnar seint í síðasta mánuði.
Sveitarstjórinn, Valdimar O. Hermannsson, segir slíkt verkefni afar spennandi en ítrekar að allt á frumstigi. Vonir standi til að frekari gögn, grófar teikningar og eða tölvumyndir verði hægt að opinbera á næstunni.
„Það er verið að skoða möguleika á að byggja hús með 4 íbúðum fyrir aldraða sem vilja minnka við sig en eru kannski ekki tilbúnir að flytja inn í Sundabúð sjálfa eða í leiguíbúðir. Þetta mun fara aftur fyrir umhverfis- og framkvæmdaráð síðar í vikunni þar sem þetta kallar á breytingu á deiluskipulagi fyrir svæðið. En þetta er spennandi verkefni sem myndi mæta þörf eldri borgara og mögulega losa húsnæði fyrir aðra aðila.“
Hjúkrunarheimilið Sundabúð á Vopnafirði er einn kostur fyrir fólk sem komið er á aldur en nú skal skoða hvort bjóða skuli aðra möguleika til að koma til móts við fólk sem vill minnka við sig á efri árum. Mynd AE