Skip to main content

Skoða hentugar lóðir fyrir orkugarð

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. mar 2022 09:08Uppfært 03. mar 2022 09:13

Sveitarfélagið Fjarðabyggð og Copenhagen Infrastructure Partners (CIP) skoða nú hentuga lóð undir væntanlegan orkugarð á Reyðarfirði. Bæjarstjóri segir fimm ár í að starfsemi hefjist gangi allt að óskum.


Fjarðabyggð, Landsvirkjun og CIP fara fyrir verkefninu en nokkur íslensk einkafyrirtæki koma að mögulegri nýtingu afurða frá garðinum á staðnum. Hugmyndin að baki honum er að búa til rafeldsneyti með rafgreiningu.

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segir að um þessar mundir sé verið að skoða mögulega lóðir fyrir starfsemina og hversu stórar þær þurfi að vera. Horft sé á svæði við Mjóeyrarhöfn, annað hvort fyrir innan eða utan álverið.

CIP tekur einnig þátt í stóru dönsku verkefni, HØST PtX Esbjerg, þar sem vindorka verður notuð til að framleiða rafeldsneyti og áburð. Jón Björn segir að það verkefni sé um ári á undan Reyðarfjarðarverkefninu og reynsla þaðan nýtist í hönnum á mannvirkjunum eystra.

Í sumar er síðan stefnt að því að hefja forrannsóknir vegna framkvæmdanna. Jón Björn áætlar að gangi leyfisveitingar, þar með talið umhverfismat, snurðulaust taki það tvö ár. Þá sé hægt að hefja framkvæmdir sem líklegt sé að taki þrjú ár. „Það eru því fimm ár þar til hægt er að byrja að framleiða, ef allt gengur vel,“ segir hann. Orkuöflun til starfseminnar er alfarið á höndum CIP.

Áfram eru í gangi viðræður við fyrirtæki sem hafa áhuga á að vinna með orkugörðunum. Laxar fiskeldi skoða möguleika á nýtingu súrefnis og afgangsvarma meðan Síldarvinnslan fer yfir tækifæri í framleiðslu skipaeldsneytis. Hjá Fjarðabyggð er verið að reikna út hvað þurfi í fjarvarmaveitu fyrir Reyðarfjörð.

Að auki nefnir Jón Björn möguleikann á áburðarframleiðslu, en slíkt fyrirtæki bættist við hópinn í haust. „Við erum mjög spennt fyrir henni og teljum hana fela í sér mikla möguleika fyrir íslenskan landbúnað.“