Skoða hvort leyfa eigi gæludýr í íbúðum Múlaþings
Hjá Múlaþingi er nú farið ofan í saumana á því hvort einhverjir annkantar séu á að leyfa gæludýrahald í almennum og félagslegum íbúðum sveitarfélagsins. Slíkt er leyft á nokkrum stöðum í landinu og hefur almennt reynst jákvætt.
Það var fyrir tilstuðlan sveitarstjórnarmannsins Eyþórs Stefánssonar sem málið var tekið fyrir hjá fjölskylduráði Múlaþings nýverið en áður hafði þetta komið til tals í heimastjórn Borgarfjarðar þar sem stjórnarmönnum leist vel á hugmyndina. Allmörg ár eru síðan til dæmis Hafnarfjörður og Kópavogur leyfðu slíkt í sínum íbúðum og reynslan verið góð samkvæmt upplýsingum sem Eyþór aflaði sér.
„Allt saman er þetta á frumstigi ennþá en fyrsta skrefið er að glöggva sig á hvað nákvæmlega felist í slíku fyrir sveitarfélagið. Þar er ég að tala um hvort það sé hugsanlega aukakostnaður að leyfa slíkt. Þar er ég að hugsa til dæmis varðandi tryggingar hvort að gæludýraheimild hækki þær eitthvað fyrir Múlaþing. En almennt þarf svo að ákveða hvernig útfæra eigi hlutina ef þetta fær brautargengi.“
Tvær meginástæður eru fyrir að leyfa gæludýrahald að mati Eyþórs:
„Svona nokkuð á kannski sérstaklega við í fólk sem býr í félagslegu húsnæði en skjólstæðingar félagsþjónustunnar hafa oft ríka þörf fyrir félagsskap og tengslamyndun sem að gæludýr geta oft veitt að einhverju leyti. Svo snýr þetta líka að almennu jafnræði. Ef einhver býr í íbúð sveitarfélagsins hvort sem er félagslegu húsnæði eða ekki, er þá eðlilegt að fólk fyrirgeri öllum rétti á að eignast hund eða kött?“
Sjálfur telur Eyþór líklegt að tíma taki að ná niðurstöðu af hálfu sveitarfélagsins því svona mál hafi marga snertifleti við hluti sem heyra undir allnokkur mismunandi svið hjá Múlaþingi og þurfi því að ræðast í nokkrum ráðum.