Skip to main content

Skoða möguleikann á reiðleið um núverandi Axarveg

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. maí 2022 14:39Uppfært 19. maí 2022 17:16

„Slík reiðleið var lengi inn á aðalskipulagi bæði í Fljótsdalshéraði og á Djúpavogi og okkur langaði að kanna hvort þetta væri fýsilegur kostur án þess að kostað yrði miklu til,“ segir Stefán Bogi Sveinsson, fráfarandi formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings.

Á síðasta fundi ráðsins lá fyrir tillaga um að tekin yrði afstaða til þess að hvort sveitarfélagið Múlaþing færi þess á leit við Vegagerðina, sem nú leggur á ráðin um nýjan heilsársveg um Öxi, að nýta eftirleiðis núverandi veg sem formlega reiðleið.

Tillagan var samþykkt samhljóða af nefndarmönnum en með þeim fyrirvara þó að hugsanlegur kostnaður sem falli á sveitarfélagið vegna þessa verkefnis verði óverulegur.

Samkvæmt fyrstu tillögum og teikningum Vegagerðarinnar að nýjum heilsársvegi mun sá að hluta til fylgja núverandi vegastæði og því óljóst hversu stór hluti núverandi vegar gæti nýst sem formleg reiðleið hestamanna.

Mikil náttúrufegurð er allt í kring þegar farið er yfir Öxi og núverandi vegur væri kjörleið fyrir hestamenn eða göngufólk á lengri ferðum þegar nýs heilsársvegur er lagður.