Skip to main content

Skoða vindorkukosti með dönskum aðilum en með skilmálum þó

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. mar 2022 15:03Uppfært 07. mar 2022 15:04

Sveitarstjórn Fljótsdalshrepps hefur formlega samþykkt viljayfirlýsingu með danska fyrirtækinu OGA um að skoða kosti vindorkuvera í landi sveitarfélagsins.

Fyrirtækið OGA er óstofnað dótturfélag danska fjárfestingarsjóðsins Copenhagen Infrastructure Partners (CIP) en sá sjóður sérhæfir sig í fjárfestingum í endurnýtanlegri orku víða um heim. Það er CIP sem gert hefur samkomulag við meðal annars Landsvirkjun og Fjarðabyggð um uppbyggingu sérstaks græns orkugarðs á Reyðarfirði en það verkefni kallar á töluverða raforku sem ekki er til staðar í dag.

Að sögn Helga Gíslasonar, sveitarstjóra Fljótsdalshrepps, er vindorka vissulega eitthvað sem hreppurinn þarf að skoða gaumgæfilega með tilliti til orkuskipta framtíðarinnar en í þessu ákveðna tilfelli hafi náðst tiltölulega óvenjulegt samkomulag.

„Þess efnis að þeir dönsku muni ekki eingöngu kanna fýsileika þess að reisa vindorkugarða í landi sveitarfélagsins heldur ennfremur skrifa þeir upp á samstarf um að kanna því samhliða öll tækifæri til þróunar og uppbyggingar annarrar tengdrar eða ótengdrar starfsemi í sveitarfélaginu.“

OGA mun því geta hafið könnun á kostum þess að reisa vindorkuver á svæðinu en þeim er gert að kynna sveitarstjórn reglulega niðurstöður rannsókna, mælinga og eða áforma. Sveitarfélagið mun samhliða þessu meta hvort og hvernig niðurstöðurnar samrýmast hagsmunum íbúa í hvert skipti og ef sú er raunin vinna þeim þáttum brautargengi sem að sveitarfélaginu snúa.

Verkefni þetta verður kynnt af hálfu beggja aðila fyrir íbúum og landeigendum á næstunni en viljayfirlýsingin sjálf mun gilda næstu þrjú árin.