Sköpunarmiðstöðin fékk Eyrarrósina: Höfum brosað í gegnum steypurykið
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 16. maí 2025 11:51 • Uppfært 16. maí 2025 11:58
Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði hlaut í gær Eyrarrósina, verðlaun sem veitt eru fyrir framúrskarandi menningarstarf á landsbyggðinni. Fyrrum framkvæmdastjóri segir þetta mikilvæg verðlaun eftir þrotlausa vinnu. Gallerí Gletta á Borgarfirði hlaut sérstök hvatningarverðlaun.
Eyrarrósin var fyrst afhent árið 2005 og var afhent árlega fram til 2020 en síðan er hún veitt á tveggja ára fresti. Hefð er fyrir að afhendingin fari fram í heimahögum síðasta verðlaunahafa. Þess vegna fór afhendingin í gær fram á Siglufirði, en Alþýðuhúsið var síðasti handhafi verðlaunanna.
„Sköpunarmiðstöðin er hjarta samfélagsins á Stöðvarfirði og afar mikilvægur samverustaður. Með framúrskarandi og framsækinni starfsemi styrkir hún samfélag sitt með sjálfbærri starfsemi sem hefur ómetanlegt gildi fyrir nærumhverfi sitt,“ sagði Lára Sóley Jóhannsdóttir, formaður valnefndar og listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík við afhendinguna.
Hátíðin stendur að verðlaununum ásamt Byggðastofnun og Icelandair. Björn Skúlason, maki forseta Íslands, er verndari hátíðarinnar og afhenti verðlaunin.
Óskarsverðlaun menningarverkefna
Una Sigurðardóttir, fyrrum framkvæmdastjóri Sköpunarmiðstöðvarinnar, tók á móti verðlaununum í gær. „Lára sagði að þetta væru Óskarsverðlaun menningarverkefna. Mér fannst það skemmtilegt því ég notaði sama orð þegar ég var að útskýra þetta fyrir syni mínum. Þetta er mikilvæg og stór viðurkenning,“ segir hún.
Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði var stofnuð árið 2011 í fyrrum frystihúsi staðarins, sem hafði þá staðið nær autt síðan vinnslu var hætt þar haustið 2005. Rósa Valtingojer frá Stöðvarfirði og maður hennar, Zdenek Paták, fóru fyrir verkefninu í fyrstu.
Mikil vinna í gamla frystihúsinu
Una og hennar maður, Vincent Wood, komu inn í verkefnið með Rósu og Zdenek árið 2014. Zdenek dró sig í hlé 2015 en Rósa starfaði með Vincent og Unu til 2020. Una segir að átakið hafi síst snúist um að koma húsnæðinu í stand. „Húsið var 2800 fermetrar og ekkert í of góðu standi þegar farið var af stað. Við vorum þarna í mörg ár með margt fólk með okkur.
Ég hef undanfarna daga hugsað um þennan tíma. Þetta var mikil vinna en ég á skemmtilegar minningar úr harkinu þar sem allir eru brosandi í steypuryki og drullu.
Ég held að stærsti vendipunkturinn á þessum tíma hafi verið þegar við fengum styrk úr sértækri byggðaáætlun til að skipta um þak. Ríkið og Fjarðabyggð hjálpuðu okkur þar. Við hefðum örugglega þurft helmingi meiri pening en þetta var verkefni sem við gátum ekki staðið í ein. Það leysti úr vandamálum eins og að við gátum ekki notað efri hæðina, 1000 fermetra.“
Ný kynslóð tekur við Sköpunarmiðstöðinni
Una og Vincent fluttu frá Stöðvarfirði síðasta sumar. Þau eru þar enn með annan fótinn, Vincent sinnir upptökustjórn í hljóðveri sem þau innréttaðu á sínum tíma og þau sinntu framkvæmdastjórn þar til í febrúar.
Nýr framkvæmdastjóri er Kris Madejski og með honum Łukasz Stencel, maðurinn að baki kaffibrennslunni Kaffi Kvörn sem starfrækt er í húsinu. „Ég hef undanfarin tvö ár undirbúið að afhenda Sköpunarmiðstöðina til næstu kynslóðar. Það tókst að gera Sköpunarmiðstöðina það sjálfstæða að hægt væri að ráða stjórnendur. Kris starfaði með okkur í ár og ég held að hann komi inn með ferskt blóð.“
Sköpunarmiðstöðin komin í aðra ermina
Una er sjálf áfram í stjórn og því inni í því sem framundan er í Sköpunarmiðstöðinni. „Við erum búin að klæða þriðjung af húsinu að utan. Ef við ímyndum okkur að Sköpunarmiðstöðin hafi fengið nýjan hatt, sem er þakið og kjól, sem er klæðningin þá er hún komin í aðra ermina.
Annað markmið er að við verðum fjórða austfirska menningarmiðstöðin. Það er tæknilegt atriði. Við höfum verið eins konar sjóræningjaskip, sem hefur verið gaman en ferli svona verkefna er að annað hvort lognast þau út af þegar frumkvöðlarnir stíga til hliðar eða þroskast yfir á næsta stig og verða að stofnun sem á sér sjálfstætt líf. Við vinnum að þessum þroska.
Það skemmtilega framundan eru ýmis námskeið og samstarf við Menningarmiðstöð Fjarðabyggðar, svo sem um skapandi sumarstörf. Síðan halda áfram að koma listamenn til að vinna að sköpun.“
Sköpunarmiðstöðin er byggðaþróunarverkefni
Verðlaunafé Eyrarrósarinnar er 2,5 milljónir króna. Þá er verðlaunahafanum boðið að standa að viðburði á Listhátíð í Reykjavík árið 2026 og framleitt verður heimildamyndband um verkefnið. Una vonast til að Eyrarrósin gefi bæði Sköpunarmiðstöðinni og Stöðfirðingum aukið sjálfstraust.
„Það er lyftistöng fyrir svæðið að hafa Eyrarrósarhafa, það er viðurkenning á gæðum starfsins. Eyrarrósin er líka mikilvæg fyrir sjálfsmynd svæðisins að við séum skapandi samfélag. Það er skemmtilegri sjálfsmynd en að við séum fiskiþorpið sem missti kvótann.
Ég hef alltaf horft á hana sem byggðaþróunarafl. Þungamiðja Sköpunarmiðstöðvarinnar er að hún er smiðja, vettvangur til að vinna að menningu og nýsköpun. Þannig er brautin lögð að tilgangi og framtíð Stöðvarfjarðar.“
Gletta hlaut hvatningarverðlaun
Gletta, gallerí í Hafnarhúsinu á Borgarfirði, var eitt þriggja verkefna sem að þessu sinni hlutu sérstök hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar. Hin tvö voru Tankarnir á Raufarhöfn og Afhverju á Laugum. Hvert verkefni fær styrk upp á 750 þúsund krónur og 100 þúsund króna gjafakort frá Icelandair.
Sköpunarmiðstöðin er fjórða austfirska verkefnið til að hljóta Eyrarrósina. Listahátíðin Lunga hlaut hana árið 2006, Skaftfell á Seyðisfirði árið 2013, Eistnaflug árið 2017 og List í ljósi árið 2019.
Austfirskur verðlaunahafar. Una Sigurðardóttir frá Sköpunarmiðstöðinni og Andri Björgvinsson, frá Glettu ásamt Birni Skúlasyni, verndara Eyrarrósarinnar. Mynd: Listahátíð í Reykjavík