Skóflustunga vegna ellefu nýrra íbúða í Neskaupstað
Fyrsta skóflustungan að nýju ellefu íbúða fjölbýlishúsi við Sólbakka í Neskaupstað var tekin í dag en bæði framkvæmdaaðilar sem og flestir birgjar vegna verksins eru austfirskir.
Austurfrétt greindi frá því snemma í ágústmánuði að byggingafyrirtækið Nestak hefði sótt um byggingarleyfi fyrir ellefu íbúða fjölbýlishúsi í Neskaupstað. Það leyfi fékkst greiðlega og fyrr í dag var tekin fyrsta skóflustungan vegna verkefnisins. Hana tók Laufey Sigurðardóttir, nýr eigandi fyrirtækisins, en Nestak er framkvæmdaaðili verksins. Húsið verður að öllu leyti byggt úr forsteyptum einingum frá MVA á Egilsstöðum.
Eiríkur Simonsen, einn eigenda Nestaks, fagnaði áfanganum ásamt öðrum og var stoltur af því hversu margir austfirskir aðilar koma að byggingu hússins. Fasteignasalan Byr selur íbúðirnar.
„Við erum búnir að vera í fjölmörgum byggingarverkefnum og það er gaman að nú er komin grundvöllur fyrir því að reisa íbúðarhús. Undirbúningurinn tekur alltaf sinn tíma nú byrjar jarðvinnan. Fljótlega förum við að sjá húsið rísa.“
Húsið sem um ræðir verður tveggja hæða. Fimm íbúðir á neðri hæð auk geymsla fyrir allar íbúðirnar en á þeirri efri verða alls sex íbúðir. Íbúðirnar verða allar rétt tæplega 80 fermetrar að stærð.
Hátíðarstund í Neskaupstað. Þar, líkt og annars staðar á Austurlandi er húsnæðisskortur viðvarandi vandamál en ellefu nýjar íbúðir munu létta á þeim skorti. Mynd: Nestak