Skip to main content

Skógrækt hluti af leiðum Íslands í átt að kolefnishlutleysi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. mar 2025 11:49Uppfært 26. mar 2025 14:52

Nýr ráðherra skógræktarmálefna segir skógrækt hluta af áætlunum Íslands um að ná kolefnishlutleysi. Farið er yfir niðurstöður nýjustu rannsókna í skógrækt á Fagráðstefnu skógræktarinnar sem sett var á Hallormsstað í morgun.


Um 125 fulltrúar sitja ráðstefnuna sem haldin er árlega og stendur í tvo daga. Yfirskrift hennar að þessu sinni er: „Frá plöntu til planka.“ Það er margþætt, frá því að skógi er valinn staður og hvernig honum er viðhaldið til að lokaafurðin verði sem best.

Þannig eru á dagskránni í dag fyrirlestrar um skipulagsmál, um nýjar rannsóknir á kolefnisbindingu og um stöðu timburvinnslu á Íslandi. Á morgun verður áfram farið yfir möguleika íslensks viðar en líka líffræðilega þróun og ógnir.

Dagskráin í morgun hófst á ávarpi umhverfis-, orku- og loftslagsmála, Jóhanns Páls Jóhannssonar, en ráðuneytið tók við málefnum skógræktar við síðustu ríkisstjórnarskipti. Jóhann Páll sagði kolefnishlutleysi og líffræðilega fjölbreytni áhersluatriði nýrrar ríkisstjórnar og skógræktin spilaði þar stórt hlutverk. Þar væru um að ræða langtímahagsmuni fyrir íslenska þjóð.

Treysta á að áfram verði stutt við starfsemi á Austurlandi


Jóhann Páll ræddi einnig sameiningu Skógræktarinnar og Landgræðslunnar í Land og skóg í byrjun árs 2024. Hann sagðist sameininguna hafa gengið vel og hann hefði trú á henni en tíma tæki að ná markmiðum hennar að fullu. Með sameiningunni hefði orðið til öflugri þekkingarstofnum með meiri slagkrafti.

Dagmar Ýr Stefánsdóttir, sveitarstjóri Múlaþing, kom einnig inn á sameininguna í sinni ræðu. Hún sagði það hefði verið vonbrigði að missa höfuðstöðvar einu ríkisstofnunarinnar á Austurlandi. Hún treysti hins vegar á að áfram yrði hlúð að þeirri miklu þekkingu sem orðið hefði til á svæðinu með veru höfuðstöðvanna.