Skip to main content

Skólar opnir í Fjarðabyggð

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. feb 2022 08:40Uppfært 07. feb 2022 08:41

Eftir athugun í morgun var ákveðið að skólar Fjarðabyggðar yrðu opnir í dag, þrátt fyrir appelsínugula veðurviðvörun.


Í tilkynningu Fjarðabyggðar kemur fram að eftir að hafa farið yfir veður og horfur í morgun hafi ekki þótt ástæða til að hafa skólana lokaða. Foreldrum og forráðafólki er í sjálfsvald sett hvort þau sendi börnin til skóla en eru beðnir um að láta skólana vita ef það er ekki gert.

Almenningssamgöngur falla niður að minnsta kosti fram að hádegi í sveitarfélaginu.

Í Múlaþingi var skóla aflýst á Egilsstöðum og í Fellabæ, á síðarnefnda staðnum spiluðu Covid-smit inn í. Ekki fundust upplýsingar á heimasíðum annarra skóla um stöðuna.

Allir fjallvegir svæðisins eru lokaðir, sem og leiðin milli Breiðdalsvíkur og Fáskrúðsfjarðar.

Samkvæmt yfirliti frá Veðurstofu Íslands er lægðin, sem hrellt hefur íbúa á suðvesturhorni landsins í nótt, á hraðri leið til norðausturs. Appelsínugular viðvaranir taka gildi á Austurlandi og Austfjörðum klukkan níu.

Veðrið á að ganga niður um hádegisbil, viðvörunin fyrir Austfirði gildir þó til 13:30.