Skora á fjáreigendur á Fáskrúðsfirði að sækja fé sem þeir kunna að eiga á Stöðvarfirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 22. júl 2025 11:28 • Uppfært 22. júl 2025 11:28
Bæjarráð Fjarðabyggðar samþykkti í gær að skora á fjáreigendur sem geta átt von á kindum í Stöðvarfirði að sækja fé sem er þar. Ráðið gerði þetta eftir erindi landeiganda um að sveitarfélagið léti smala ágangsfé úr landi hans.
Eigendur Óseyrar í Stöðvarfirði hafa undanfarin ár farið fram á að sveitarfélagið láti smala land þeirra og vísað í lög um afréttarmálefni og fjallskil frá árinu 1986 máli sínu til stuðnings. Þar er lögð skylda á sveitarfélög að smala fé sem gengur í einkalandi.
Nýjasta erindi þeirra barst Fjarðabyggð 6. júlí síðastliðinn þar sem þeir óska eftir smölun sem fyrst því um sé að ræða leyfislausa og ólöglega notkun annarra á landi þeirra þannig að tjónið verði lágmarkað.
Í erindinu áskilja landeigendurnir sér rétt til að krefja eigendur kindanna um bætur vegna tjóns af þeirra völdum, eða af hálfu sveitarfélagsins verði um óásættanlega seinkun á smölun að ræða.
Áhaldahúsið kíkti eftir kindum
Viðbrögð bæjarráðs, sem fundaði 14. júlí, voru að óska eftir því við umhverfis- og framkvæmdasvið að kanna málið nánar. Daginn eftir fór starfsmaður áhaldahúss á vettvang. Í greinargerð hans segist hann hafa séð 17 kindur á þremur stöðum í nágrenni Óseyrar. Hann telur líklegast að féð komi frá Fáskrúðsfirði og bætir við að trúlega séu þetta kindur sem hafi sést víða í Stöðvarfirði í sumar.
Bæjarráð tók greinargerðina fyrir á fundi sínum í gær og samþykkti þar að senda áskorun á fjáreigendur sem eiga von á fé í Stöðvarfirði um sækja fé sitt. Það þýðir að miðað við fyrirliggjandi gögn er áskorun send á fjáreigendur í Fáskrúðsfirði.
Fjáreigendur hafa andmælarétt
En það er enn meira eftir. Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs, segir að ekki liggi fyrir full vissa um hver eigi féð. Bændurnir hafa, samkvæmt stjórnsýslulögum, tvær vikur til að mótmæla áskoruninni. Ef það gerist þurfi að skoða málið á ný. Mat sveitarfélagsins er að það þurfi að uppfylla stjórnsýslukröfur áður en það láti smala eða handsama féð.
Ragnar segir viðbrögð sveitarfélagsins nú í takt við fyrri ár. Eigendur fjárins hafi alltaf verið hvattir til að sinna því. Viðbrögðin í ár séu hins vegar formlegri.
Umboðsmaður Alþingis og ráðuneyti hafa undanfarin ár fjallað um kvartanir landeigenda undan ágangsfé og kröfur þeirra á sveitarfélög um smölun. Í nýjustu umfjöllun umboðsmanns, síðan í vetur, er áréttað að lög séu þannig að landeigendur eigi ekki að þola ágang sem geti valdið tjóni og þess vegna sé sú skylda lögð á sveitarfélögin að smala. Umboðsmaður beinir því hins vegar til ríkisins að skoða hvort lögin gangi upp í raun.