Skorar á fólk að kjósa Fjarðagöng í stað Fjarðarheiðarganga
Þegar þetta er skrifað hafa rúmlega hundrað manns skrifað undir sólarhringsgamla undirskriftasöfnun þess efnis að samgönguáætlun ríkisins verði breytt á þann veg að það verði Fjarðagöng en ekki Fjarðarheiðargöng sem sett verði í forgang í jarðgangnagerð á Austurlandi.
Fjarðagöng, eins og nafnið gefur til kynna, tengja saman fleiri firði en einn. Nú hefur Mjófirðingurinn Erlendur Magnús Jóhannsson, sem búið hefur í Neskaupstað um áraraðir, fengið sig fullsaddan af tómu tali hér og þar um hlutina og ákveðið að efna til undirskriftasöfnunar á Ísland.is vegna málsins. Telur hann engan vafa leika á að Fjarðagöngin séu heillavænlegri fyrir Austurland en Fjarðarheiðargöng og það gildi ekki síður fyrir Seyðfirðinga en aðra íbúa fjórðungsins.
Fyrir ókunnuga eru rúmlega þrettán kílómetra löng Fjarðarheiðargöng frá Seyðisfirði og yfir á Egilsstaði í farvatninu samkvæmt samgönguáætlun en núgildandi áætlanir gera ráð fyrir að hafist verði handa við þau göngin á næstu misserum og þau verði opnuð umferð einhvern tíma milli 2030 og 2032 eða svo.
Erlendur segir lítinn vafa leika á að Fjarðagöng nýtist mun fleirum en Fjarðarheiðargöngin. Fjarðagangnaleiðin gengur út á tvenn styttri göng, annars vegar frá Seyðisfirði yfir í Mjóafjörð og önnur þaðan yfir í Neskaupstað, og hann undrast stórum að eina fólkið sem gagnrýni þessa útfærslu hingað til séu Seyðfirðingar.
„Ég er undrandi á því að eina gagnrýnin, og reyndar ýmisleg verri komment, hafa komið frá Seyðfirðingum síðan ég setti þessa undirskriftasöfnun af stað. Undrandi sökum þess að Fjarðagöng yrðu líka mikil samgöngubót fyrir Seyðfirðinga og aðeins bæta þetta sex til sjö kílómetrum við leiðina til Egilsstaða umfram þessi Fjarðarheiðargöng. Fjarðagöngin myndi líka stórbæta samgöngur í Mjóafirði og yfir í Neskaupstað og opna heilmikið svæði fyrir nýja íbúa og ferðaþjónustu. Ég veit persónulega um þrjár fjölskyldur sem hafa lengi haft áhuga að hreiðra um sig í Mjóafirði en slæmar samgöngur koma í veg fyrir að það verði gert.“
Erlendur tekur fram að samhliða þessu verði að sjálfsögðu gerð krafa um að Fjarðarheiðin verði áfram rudd eins og nú er gert þannig að sú leiðin verði opin samhliða nýjum Fjarðagöngum. Kostnaðarmunur á þessum tveimur gangnakostum sé það mikill að áfram verði hægt að greiða niður snjómokstur á heiðinni samhliða nýjum göngum. Hann telur ólíklegt að sú leið verði opin að vetrarlagi samhliða Fjarðarheiðargöngum.
Hann segir ekki hugmyndina með undirskriftalistanum að skapa leiðindi eða ósætti heldur þvert á móti fá fram góða umræðu um hvaða leið Austfirðingum öllum þyki best og vænlegust áður en hafist verði handa við Fjarðarheiðargöngin.
„Það hefur verið hálf leiðinlegt að horfa upp á alls konar umræður og greinar hér og þar og sitt sýnist hverjum en engum hefur fyrr en nú dottið í hug að gera einhvers konar könnun á hvað fólkinu hér á Austurlandi finnst best að gera. Ég er í öllu falli afar sáttur við að yfir hundrað manns hafa þegar skrifað undir þó aðeins sé sólarhringur síðan ég setti áskorunina á netið.“
Undirskriftalisti Erlends er á vefnum Ísland.is og gerir hann ráð fyrir að hafa listann opinn og aðgengilegan fram til febrúar á næsta ári.
„Það er mín von að ef fólk fer að hugsa málið sjái það glögglega hvað Fjarðagöng séu í stóru myndinni betri kostur en Fjarðarheiðargöng. Kostir þeirra fyrrnefndu eru miklu fleiri.“
Tvenn göng sem Erlendur telur vænlegri kost eru mun ódýrari og fljótlegri kostur en ein Fjarðarheiðargöng.