Skip to main content

Skorar á þingmenn Norðausturkjördæmi að rýna betur í áhrif veiðigjalda

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. apr 2025 11:29Uppfært 07. apr 2025 09:20

Framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði segir ljóst að fyrirtækið þurfi að bregðast við með einhverjum hætti verði áform um breytingar á veiðigjöldum að veruleika sem hann lýsir sem aðför að rekstri félagsins. Hann vonast til að þingmenn kjördæmisins skoði betur það sem verið hefur að gerast í umhverfi uppsjávarfyrirtækja síðustu misseri.


„Það er alveg ljóst að fyrirhuguð veiðigjöld eins og þeim er stillt upp í frumvarpi stjórnvalda mun leggjast afar þungt á rekstur félags eins og Loðnuvinnslunnar,“ segir Garðar Svavarsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar í svari við fyrirspurn Austurfréttar um ætluð áhrif breyttra veiðigjalda á starfsemi fyrirtækisins.

Loðnuvinnslan er blönduð útgerð, hefur styrkt sig í bolfiski síðustu ár en hefur líka verið öflug í uppsjávarfiski. Kvóti félagsins er ekki stór sem sést meðal annars á að skip þess Hoffell fékk innan við 2% af þeim loðnukvóta sem úthlutað var í vetur. Loðnuvinnslan hefur hins vegar verið útsjónarsöm í kaupum á hráefni af erlendum skipum.

Veruleg hækkun á Loðnuvinnsluna


Garðar segir að félagið hafi á síðustu árum fjárfest í dýrum rekstrareiningum í uppsjávarhlutanum og þær verið reknar með góðum árangri, þrátt fyrir hinn takmarkaða kvóta. Í fyrra hafi 65% af rekstrarafgangi, fyrir skatta og fjármagnskostnað, farið í veiðigjöld. Miðað við óbreyttan afla ættu veiðigjöld félagsins að hækka um 30% í ár.

Í frumvarpinu er lögð til veruleg hækkun á veiðigjöldum af síld, kolmunna og sérstaklega makríl sem starfsmenn Loðnuvinnslunnar hafa reiknað út að hækki veiðigjöld félagsins um 116%. Þar með hækki enn frekar það hlutfall hagnaðarins sem fari í veiðigjöld sem aftur geti bitnað á fjárfestingum.

Garðar bendir líka á að uppsjávarveiðar séu ótryggar. Tvö ár í röð hafi orðið loðnubrestur og makrílinn þurfi að sækja langt. Þess vegna telji hann ekki að reksturinn beri þessar miklu auknu álögur.

Ljóst að bregðast þarf við ef áformin ganga eftir


Hann minnir einnig á að Loðnuvinnslan sé að stærstu í eigu Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga sem aftur sé í dreifði eign heimafólks með 360 skráða félagsmenn. Stefnan hafi verið á hóflegan arð og nýta fjármunina til fjárfestinga til að styrkja félagið. „Fyrirhuguð skattlagning mun draga verulega úr getu félagsins til frekari fjárfestinga og standa í vegi fyrir nauðsynlegri endurnýjun í rekstrinum,“ segir hann.

Hann skorar á þingmenn Norðausturkjördæmis að skoða vandlega áhrif frumvarpsins. „Ég trúi því einfaldlega ekki að kjördæmakjörnir þingmenn hvar sem þeir standa í pólitík geti stutt slíka aðför að rekstri félagsins.“

Hann segir að Loðnuvinnslan ætli sér að berjast fyrir að halda vinnslu á Fáskrúðsfirði, en talsmenn sjávarútvegsfyrirtækja hafa varað við að tillögur frumvarpsins þýði að líklegra sé að afli verði fluttur óunninn úr landi til landa þar sem laun séu lægri. „Ef þessi áform verða að veruleika er ljóst að fyrirtækið þarf að bregðast við með einhverjum hætti. Það er hinsvegar í anda félagsins og starfsfólksins að sækja fram á veginn og því óþolandi að þurfa að stilla upp í varnarleik fyrir tilstuðlan stjórnvalda.“