Skotárás: Saksóknari telur ásetning skotmanns hafa verið skýran
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 25. feb 2022 19:15 • Uppfært 25. feb 2022 19:19
Saksóknari telur ásetning karlmanns, sem meðal annars er ákærður fyrir tvær tilraunir til manndráps í skotárs á Egilsstöðum í lok ágúst, liggja skýran fyrir. Mildi sé að ekki hafi farið verr. Krafist er að lágmarki fimm ára fangelsis.
Þetta kom fram í lokaræðu Kolbrúnar Benediktsdóttur, varahéraðssaksóknara, sem flutti málið fyrir hönd ríkisins. Aðalmeðferð málsins lauk í Héraðsdómi á sjötta tímanum í kvöld, eftir um þriggja og hálfs tíma málflutning saksóknara og verjanda.
Erfitt að neita en muna ekkert
Ákærði neitaði fyrsta lið ákærunnar, þar sem hann var sakaður um að hafa beint skammbyssu að þáverandi sambýliskonu sinni á heimili þeirra í Fellabæ að kvöldi 26. ágúst síðastliðins. Ákært var fyrir brot í nánu sambandi en þau höfðu verið saman í um eitt og hálf ár.
Fram hafði komið að ákærði og sambýliskona hans hefðu tekist á um síma hennar vegna samskipta sem ákærði vildi fá að sjá. Þau hefðu síðan stigmagnast þannig hún hefði flúið inn á bað. Um smá tíma hefði látunum linnt en þegar hún opnaði fram hafi hún séð ákærða kominn með skammbyssu sem hann hafi lyft að henni.
Kolbrún sagði ákæruna studda með endurriti úr símtali konunnar til neyðarlínu þar sem hún kalli eftir hjálp því maðurinn sé kominn með byssu. Þótt ákærði neiti segi hann einnig að hann muni ekki atburðina. Því sé engum framburði af hans hálfu til að dreifa. Að mati ákæruvaldsins er brotið fullsannað við að skotvopninu hafi verið lyft upp og ljóst af símtalinu og síðari skýrslutökum að konan hafi talið sig í hættu.
Ekki vopnaður til að kenna öðrum lexíu
Maðurinn játaði hluta annars ákæruliðar, þar sem hann fór vopnaður inn á heimili fyrrum sambýlismanns konunnar og hleypti úr byssu sinni. Hann neitaði hins vegar að hafa ætlað að bana húsráðanda.
Kolbrún sagði ótrúlegt að ákærði hefði aðeins ætlað sér að ræða við sambýlismanninn fyrrverandi, þá hefði hann ekki farið „vopnaður tveimur skotvopnum og með fullan vasa af skotfærum.“ Hún vísaði til samskipta ákærða við konuna þar sem hann sagðist ætla „taka þetta kvikyndi út“ og lýsingar vitna sem sögðu ákærða hafa verið sturlaðan af bræði. Þá vitnaði hún um framburð sona mannsins og konunnar sem voru heima og báru að ákærði hefði beint byssunni um húsið eins og hann væri að leita að föður þeirra.
Kolbrún sagði ákærða hafa sýnt ótvíræðan ásetning með að fara vopnaður af stað, auk þess að hafa hlaðið báðar byssurnar áður en hann fór inn í húsið í Dalseli. Enginn gæti sagt til um hvað hefði gerst hefði ekki viljað þannig til að maðurinn væri nýfarinn út að viðra hundinn. „Það er léleg refsivernd ef ekki er hægt að sakfella því viðkomandi er nýfarinn út fyrir tilviljun,“ sagði Kolbrún. Þá benti hún að maðurinn hefði um kvöldið ekki hikað við að beita skotvopnunum.
Saksóknari hafnaði því að hægt væri að leggja þær kröfur á ákæruvaldið að hægt væri að sanna með 100% vissu hvað gerst hefði ef húsráðandi hefði verið heima. Ásetningurinn lægi fyrir og allar líkur á að hefði húsráðandi verið heima þá hefði ákærð skotið hann.
Þriðji liður fjallaði um ógnun ákærða gegn drengjunum tveimur sem sátu heima í sófa. Hann viðurkenndi að þeir hefðu upplifað ógn en hafnaði að hafa beint byssunni að þeim. Kolbrún sagði að líta svo á að sök væri sönnuð þar sem ákærði hefði ruðst inn í húsið, vopnaður með miklum látum og beint byssunni um húsið.
Eðlilegt að minningar skolist til í hita leiksins
Ákærði hafði einnig játað hluta fjórða liðar ákærunnar um að hafa óhlýðnast lögreglu, valdið eignaspjöllum með skoti á húsið á móti og vopnalagabrot en neitaði ákæru um tilraun til manndráps með að hafa skotið á lögregluþjón eða valdið almannahættu.
Kolbrún sagði að þótt þeim tveimur lögregluþjónum, sem fyrst komu á vettvang, hefði ekki borið fyllilega saman fyrir dómi, yrði að hafa það í huga að þau hefðu fengið vitneskju um vopnaðan mann sem hleypt hefði af skotum. Jafnvel þótt skýrsla tæknideildar lögreglu sýndu annað rýrði það ekki framburð lögreglumanns þótt hann hefði haft rangt fyrir sér um staðsetningu sína. Um „hræðilegt útkall“ hefði verið að ræða og ekki óeðlilegt að eitthvað skolaðist til í hita leiksins. Þrátt fyrir þetta sýndu samskipti og gögn málsins að lögreglumaðurinn hefði verið „fókuseraður á skotmanninn.“
Kolbrún benti á að þau væru sammála um að ákærði hefði beint byssu að þeim. Þá vitnaði þriðji lögregluþjónninn, sem horfði inn í húsið aftan frá, um að ákærði hefði brugðist við köllum lögreglu með því að hlaða byssuna, lyfta henni í skotstöðu og fara fram í forstofuna. Hún sagði ekkert hafa komið fram sem rengdi skýrslu tæknideildar um ferla skota ákærða, sem ekki hefðu farið hátt yfir höfuð lögreglu.
„Aðalatriðið eru skot ákærða og hvert þau fóru“
Fyrir dómi í gær var tekist á um hvort lögregla eða ákærði hefðu hleypt af fyrsta skotinu. Kolbrún sagði það engu máli skipta, lögregla væri í rétti gagnvart manni sem beindi að henni skotvopni en hann ekki. „Lögregla veit að þarna er vopnaður maður í æsingsástandi og lögregla er tilbúin. Þegar hann kemur út í dyr skýtur lögregla. Það skiptir ekki máli hvor skýtur fyrst.
Hann skýtur þremur skotum í átt að lögreglu. Hann er ekki í rétti til að skjóta að lögreglu eins og hann gerði. Aðalatriðið eru skot ákærða og hvert þau fóru. Hann sýndi ásetning til að skjóta að lögreglu og lét sér í léttu rúmi liggja hvort hann hæfði. Hann segist hafa skotið án þess að miða og viðurkennir þannig sjálfur að hann vissi ekki hvert hann var að skjóta. Þetta er algjörlega klár tilraun til manndráps.“
Varðandi hættubrotið sagði Kolbrún að skemmdir á húsinu á móti sýndu að heppni væri að íbúi þess hefði ekki verið úti við. Það hefði vel getað gerst. Stórhættulegt væri að skjóta með þessum hætti inni í íbúðahverfi.
Lögregla gat ekki treyst manninum
Ákærði breytti í morgun afstöðu sinni til þess hluta ákærunnar sem varðaði ógnun við lögreglu í lok atburðarásarinnar, áður en hún skaut hann, og játaði hana eftir að hafa hlustað á framburð lögreglufólksins.
Maðurinn hefur lýst því að hans ætlan hafi verið að láta lögregluna drepa sig og því þurft að skapa með henni ógn. Saksóknari kvaðst ekki rengja það en horfa yrði til þess hvernig atvikið hefði blasað við lögreglu sem ekki hefði getað treyst neinu varðandi fyrirætlan ákærða þegar hann kom gangandi rösklega út úr húsinu.
Algjör harmleikur fyrir alla
Kolbrún sagði að þótt ekki væri hægt að útiloka að kvíðalyf mannsins hefði haft einhver áhrif á gerðina þá væri mikil streita og áfengisneysla líklegri skýringar. Þá bæri maðurinn ábyrgð á að hafa drukkið ofan í lyfið.
Kolbrún sagði málið „algjöran harmleik og sorglegt fyrir alla.“ Ákærði hefði engan sakaferil og væri lýst af öllum sem þekktu að hann hefði aldrei sýnt af sér slíka háttsemi fyrr en mánuði fyrr. Málið hefði haft áhrif á hann og fjölskyldu hans, en líka valdið öðru fólki, heimilisfólki í Dalseli og lögreglu áfalli til framtíðar. „Það er mildi að allir hafi komið lifandi út úr þessum atburði.“
Kolbrún gerði ekki kröfu um ákveðna refsingu. Hún nefndi þó að lágmarksrefsing fyrir tilraun til manndráps væri fimm ár og ákæruvaldið teldi ekki vera hægt að fara neðar en það. Þarna væru um tvær tilraunir að ræða auk annarra ákæruliða sem kæmu til þyngingar. Þá minnti hún á að fyrir alvarlegt brot gegn valdstjórninni lægi allt að átta ára fangelsisrefsing.
Einstakt mál í íslensku dómskerfi
Jón Jónsson, réttargæslumaður þáverandi sambýliskonu mannsins, hennar fyrrverandi sambýlismanns og barna þeirra sagði kröfur þeirra um miskabætur meðal annars byggjast á að beiting skotvopna gerði verknaðinn alvarlegri en almennt ofbeldisbrot. Það gerði atburðarásina jafnvel einstaka fyrir íslenska dóma.
Ákærði neitaði kröfu hennar og taldi kröfur mannsins og drengjanna of háar. Jón benti á atburðurinn hefði haft langvarandi áhrif á þau öll, enda upplifað mikla ógnun á heimilum sínum. Tilviljanir og lán hefðu ráðið því hvernig fór.