Skotárás: Tekist á um fjölda skota og staðsetningar

Framburðir lögregluþjóna, sem tóku þátt í vettvangsaðgerðum vegna skotárásar í Dalseli á Egilsstöðum í lok ágúst, ber ekki fyllilega saman innbyrðis né saman við tækniskýrslur. Þeim ber þó saman um að skotmaðurinn hafi ítrekað hundsað fyrirmæli um að láta af hátterni sínu og klára ógn stafað af honum.

Ríflega fertugur karlmaður er ákærður fyrir að hafa fyrst ógnað sambýliskonu sinni með byssu á heimili þeirra í Fellabæ að kvöldi 26. ágúst í fyrra, áður en hann ók yfir í Dalsel þar sem fyrrverandi maður hennar býr ásamt tveimur börn þeirra. Þar fór maðurinn inn vopnaður skotvopnum og hleypti bæði innan dyra og utan, meðal annars í átt að lögreglu, áður en hann var skotinn. Hann er meðal annars ákærður fyrir tvær tilraunir til manndrápa. Hann neitar þeim hluta ákærunnar. Maðurinn skýrslur fyrstur allra málsaðila þegar aðalmeðferð málsins hófst í Héraðsdómi Austurlands í morgun.

Konan, drengirnir og hennar fyrrverandi maður báru síðan vitni. Þinghald yfir konunni og drengjunum var lokað en opið yfir manninum.

Hann lýsti því að hann hefði verið á leið út úr húsinu með hundinn þegar símtal hefði borist frá Neyðarlínunni og hann varaður við að ákærði vopnaður á leið að húsi hans. Hann sagðist ekkert ósætti hafa verið milli þeirra á undan og hann vonað það besta fyrir þeirra hönd.

Hann hefði síðan haldið til úti í Selskógi á meðan lætin gengu yfir og þar til lögregla hafði komið drengjunum í öruggt skjól. Hann hefði fengið símtal frá ákærða og reynt árangurslaust að tala hann til. Hann kvaðst ekki muna til þess að ákærði hefði hótað honum lífláti.

Taldi sig hafa skotið færri skotum

Eftir hádegi báru þeir lögregluþjónar, sem stóðu í eldlínunni á vettvangi, vitni. Fyrstur var sá lögregluþjónn sem að lokum skaut manninn. Hann sagðist hafa verið heima hjá sér á frívakt þegar hann hefði fengið kall um að vopnast og fara með ungri lögreglukonu sem var ein á vakt. Hún hefði sótt hann og þau fyrst farið í Fellabæ, eftir upprunalegum upplýsingum, en þá fengið nýjar upplýsingar og farið yfir í Egilsstaði. Þau hafi fengið vitneskju um skothvelli, í fleirtölu, áður en þau komu á vettvang í Dalseli.

Lögreglumaðurinn sagði þau hafa lagt lögreglubílnum fyrir utan húsið og séð ákærða inni í því. Lögreglumaðurinn hefði síðan komið sér fyrir í vari við bílinn með skjöld og kallað til ákærða að vopnuð lögregla væri mætt og skorað á hann að leggja frá sér vopnin. Þess í stað hefði ákærði komið út og skotið tveimur skotum sem lögreglumaðurinn svaraði með 4-5 skammbyssuskotum. Sagðist hann ekki muna mikið meira en eldglæringar og hávaða. Þetta hefði gerst á 4-5 sekúndum áður en ákærði fór aftur inn í húsið.

Deilt um staðsetningar

Þessi atburðarás varð helsta bitbeinið í dag þar sem verjandi þráspurði lögreglumanninn um frásögn hans, sem hann ítrekaði aftur og aftur. Lögreglukonan sem og stjórnandi rannsóknar tæknideildar lögreglu báru á móti að lögreglumaðurinn hefði ekki verið staðsettur á bakvið lögreglubílinn í upphafi, heldur nokkuð nær húsinu eða við vélarhlíf jeppabifreiðar í hlaðinu sem vísaði að götunni. Var það niðurstaða tæknideildarinnar meðal annars út frá tómum skothylkjum úr byssu lögreglumannsins á vettvangi. Þá staðsetningu virtist lögreglukonan staðfesta. Vettvangsrannsókn sýndi einnig að lögreglumaðurinn hefði skotið 10-11 skotum í þessari lotu. Lögreglumaðurinn svaraði að það væri nýjar fréttir fyrir sér.

Einnig var deilt um staðsetningu ákærða. Lögregluþjóninn sagði hann hafa verið kominn út úr húsinu en ákærði kvaðst hafa verið í forstofunni. Niðurstaða tæknideildar út frá skothylkjum var að hann hefði verið annað hvort rétt fyrir innan eða utan dyragættina, líklega þó fyrir innan.

Óljóst hver skaut fyrst

Verjandi vefengdi einnig fullyrðingu lögregluþjónsins um að ákærði hefði skotið á undan. Því til stuðnings lagði hann fram matsgerð dómkvadds erlends sérfræðings um tímasetningu skota út frá myndbandsupptöku úr lögreglubíl en samkvæmt henni hleyptu ákærði og lögreglan af sínum fyrstu skotum á sömu millisekúndunni. Lögregluþjóninn staðhæfði hins vegar að hann hefði aldrei skotið án þess að fyrst væri skotið á hann. Rannsókn íslensku tæknideildarinnar gat ekki skorið úr um það. Lögreglukonan sagði ákærða hafa skotið fyrst en gat ekki svarað spurningu verjanda um hvernig hún gæti verið fullviss um það heldur kvaðst að lokum ekki getað tjáð sig um það.

Eins var tekist á um hvort skotin hefðu verið ætluð í áttina að lögregluþjóninum. Hann sagði ákærða hafa hent byssunni upp og skotið á hann. Það hefðu ekki verið „viðvörunarskot í leit að gæs.“ Hann hefði síðan skotið á móti en sem blessunarlega hefði hvorugur hæft hinn í atganginum. Verjandi þráspurði lögregluþjóninn sem ítrekaði að ákærði hefði beint byssunni að sér. Lögreglukonan sagði engan vafa um að hann hefði beint byssunni að þeim, þótt hún myndi ekki nákvæmlega hvernig á henni hefði verið haldið.

Tæknideild lögreglunnar taldi lögregluþjóninn hafa verið innan hættulínu haglaskotanna, miðað við kennslubækur og hann innan skotlínu. Stjórnandi vettvangsrannsóknarinnar sagði ljóst að hann hef verið í verulegri hættu og tilviljun ein ráðið að skotin fóru framhjá honum. Verjandi lagði á það áherslu að lögregluþjóninn hefði kropið á bakvið bíl og skjöld og vart verið ákærða sýnilegur. Stjórnandi vettvangsrannsóknarinnar sagði aðeins hafa verið reiknaða út líklega stöðu hans, ekki hvort hann hefði kropið eða staðið. Aðeins hefðu verið skoðuð vettvangsgögn, engar frásagnir.

Virtist ekki ætla að hlýða fyrirmælum

Eftir þessa skotlotu fór ákærði aftur inn í húsið. Skömmu síðar kom vopnaður lögreglumaður úr Fjarðabyggð á vettvang til stuðnings Egilsstaðalögreglunni. Þá fylgdist með vettvangi lögreglukona sem bjó í næstu götu. Frekari lögreglu dreif síðan að.

Lögregluþjónninn úr Fjarðabyggð og unga lögreglan fóru upp þá götu til að reyna að tryggja að ákærði slyppi ekki út um stofudyr hússins og hyrfi vopnaður út í kvöldmyrkrið en komust ekki jafn langt og þau ætluðu sér. Þegar þau komu til baka sáu þau ákærða koma gangandi út úr húsinu með vopnið fyrir framan sig að lögreglubíl á götunni, sem lögregluþjónninn frá Egilsstöðum var þá í vari við. Hann kallaði aðvörun að manninum sem lagði vopn sitt á húdd bílsins. Lögregluþjóninn skaut hann þá yfir vélarhlífina.

Lögreglumaðurinn úr Fjarðabyggð var þá kominn út á götuna og búinn að draga sína byssu upp. Hann taldi þetta hafa verið einu leiðina, ákærði hefði verið ógnandi og lögreglan ekki átt undankomu auðið. Hann talaði í framburði sínum að ákærði hefði verið búinn að sýna að hann væri tilbúinn að skjóta á fólk. Hann sagði kollega sinn hafa kallað á ákærða meðan hann gekk að bílnum en mundi ekki nákvæmlega hvað.

Sá sem skaut lýsti því að „óhugnanlegt“ hefði verið að horfa í augu ákærða sem hefði verið „alveg vitfirrtur“ og „ekki ætlað að hlýða fyrirmælum.“ Hann kvaðst ekki muna hvort hann hefði fengið upplýsingar fyrir eða eftir lokaskotið að ákærði hefði ætlað að láta lögregluna bana sér. Hann kvaðst ekki hafa vitað hvað ákærði hefði hugsað, lögreglan hefði ekki átt aðra kosti. Fram kom hjá verjanda að hljóðupptökur frá fjarskiptamiðstöð lögreglu staðfestu að upplýsingarnar hefðu borist áður.

Gagnslausar búkmyndavélar

Að endingu var í dóminum deilt um nákvæma staðsetningu lögreglubifreiða, hvort þær hefðu verið færðar til á einhverjum tímapunkti og lýsingu á svæðinu. Lögregla sagði að götulýsing og ljós í húsinu hefði gefið næga birtu en ákærði hafði áður sagt að ekki væri „skotbjart.“

Engar upptökur eru til sem gagn er að úr búkmyndavélum lögreglu. Fram kom að verið væri að skipta þeim myndavélum sem notaðar væru á Egilsstöðum út vegna lélegrar rafhlöðu. Myndavél lögreglumannsins var í hleðslu á stöðinni og vél samstarfskonu hans varð rafmagnslaus á leiðinni yfir Egilsstaðanes, að hans sögn. Þeim bar reyndar ekki hvenær það gerðist og hvort hann hefði þá verið kominn með myndavélina. Myndavél lögreglunnar úr Fjarðabyggð var virk en þannig staðsett að hún sýndi aðeins bakhlið varnarskjaldarins.

Sá hann hlaða byssuna

Lögreglukonan sem var á heimili sínu í fríi, lýsti því hvernig hún hefði fyrst orðið vör við bíl ákærða koma á mikilli ferð upp Selbrekkuna þar sem hún sat á sólpallinum heima hjá sér. Hún hefði strax áttað sig á hverjir í hlut ættu þegar bíllinn hefði stoppað við húsið. Hún sagði mann sinn hafa heyrt byssuhvelli og hún þá strax hringt í Neyðarlínuna og krafist sambands við fjarskiptamiðstöð lögreglu.

Þegar hún hefði farið fram af pallinum hjá sér hefði hún séð drengina koma hlaupandi út úr húsinu og síðan blossa milli húsanna sem hún hefði síðar áttað sig á að hefðu verið frá byssum. Hún hefði ekki séð ákærða þá.

Hún hefði komist upp að húsinu í Dalselinu og náð að horfa þar í gegnum glugga á bakhlið á ákærða hleypa af skotum úr haglabyssu inni í því. Síðan hafi hún orðið vör við lögreglubíl koma upp götuna. Þegar kallað hefði verið „vopnuð lögregla“ hefði ákærði stigið út úr eldhúsinu, sett tvö skot í byssuna, rétt hana upp og farið út í hurðina og skotið. Hún sagði ákærða hafa horfið sér sjónum meðan hann skaut, aðeins heyrt hvellina. Hún hefði hins vegar séð hann skömmu áður og kvaðst vart geta lýst honum, eins og hann væri ekki mennsk manneskja í svipinn heldur heltekinn reiði. Hún kvaðst ekki viss um fjölda skota, heldur hefði verið snöggur taktur skota í stuttan tíma. Fyrir henni hefðu skotin í raun runnið saman í eitt.

Líf ákærða hékk á bláþræði

Lögreglukonan lýsti vandlega hvernig hefði tekið við af lögreglumanninum í Fjarðabyggð við að hlúa að ákærða eftir að hann var skotinn. Það var einn átakanlegasti kaflinn í dómssalnum í dag. Í þeim framburði kom fram kunningsskapur fólks sem að kvöldi 26. ágúst var í afar mismunandi hlutverkum.

Lögreglukonan talaði meðal annars um hvernig hún hefði kallað á ákærða röngu nafni til að pirra hann til að svara sér og halda meðvitund. Hann hefði gert það, ávarpað hana með enafni og sagt hana vita fullvel hvað hann héti. „Það var gott að heyra þessi orð og meðvitundina.“

Hann hafi síðan óskað þess að fá að deyja í friði sem hún hefði aftekið með öllu. Hún hafi síðan reynt að stappa í hann stálinu með að segja það myndi allt lagast. Systir ákærða hefði síðan komið á vettvang og verið hleypt fram hjá lögreglu. Þegar hún hefði talað við bróður sinn hefði allt í einu verið kominn annar maður í hendurnar á þeim, maður sem vildi lifa og tilbúinn að berjast fyrir lífi sínu. Lögreglukonan taldi líf ákærða hafa hangið á bláþræði, hreinlega kraftaverk verið að hann dæi ekki í höndunum á henni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.