Skip to main content

Skotárás: Verjandi sagði alvarlega galla á rannsókn og frásögnum lögreglu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. feb 2022 20:48Uppfært 25. feb 2022 20:52

Verjandi karlmanns, sem meðal annars er ákærður fyrir tvær tilraunir til manndráps í skotárás á Egilsstöðum í ágúst síðastliðnum, telur mikla ágalla á frásögnum og rannsókn lögreglu á málinu. Þá hafi ekki tekist að sanna svo hafið sé yfir allan vafa að maðurinn hafi ætlað sér að skjóta fólk.


Þetta kom fram hjá verjandanum, Þórði Má Jónssyni, í lokaræðu hans eftir hádegi í dag.

Ekki hægt að byggja sekt á einu vitni

Ákærði neitaði fyrsta lið ákærunnar, þar sem hann var sakaður um að hafa beint skammbyssu að þáverandi sambýliskonu sinni á heimili þeirra í Fellabæ að kvöldi 26. ágúst síðastliðins.

Þórður Már sagði að í símtölum konunnar við lögreglu og Neyðarlínu þetta kvöld hefði ekkert komið fram um skammbyssuna. Það atriði hefði bæst við frásögnina síðar. Þá væri ekki hægt að sakfella á grundvelli framburðar eins vitnis, án frekari stuðnings í gögnum. Því væri verulega langt frá því að sannað væri að ákærði hefði beint skammbyssu að konunni.

Ásetningur ósannaður

Maðurinn játaði hluta annars ákæruliðar, þar sem hann fór vopnaður inn á heimili fyrrum sambýlismanns konunnar í Dalseli á Egilsstöðum og hleypti úr byssu sinni. Hann neitaði hins vegar að hafa ætlað að bana húsráðanda, aðeins vilja kenna honum lexíu fyrir að skemma fyrir sér með að breiða út um sig flökkusögu. Saksóknari taldi það að mæta með vopn og hlaða á vettvangi dæmi um skýran ásetning.

Því hafnaði Þórður Már og benti á fordæmi um það að mæta með skotvopn á vettvang teldist ekki sönnun fyrir því að viðkomandi væri í raun tilbúinn að ganga alla leið. Þvert á móti hefði ákærði hringt í húsráðanda og ekki hótað honum lífláti þrátt fyrir að vera þá í mesta sturlunarástandinu né gert atlögu.

Þórður Már vísaði einnig til orða saksóknara um að aldrei væri hægt að sanna ásetninginn að fullu. Taldi verjandinn ákæruvaldið þarna sjálft hafa viðurkennt að skynsamlegur vafi til staðar um hvort ákærði hefði verið tilbúinn að ráða húsráðanda bana og minnti á að þegar sönnunarbyrði væri sakborningi í óhag hvíldi sönnunarbyrði á ákæruvaldinu. Þá rifjaði verjandi upp orð vitna um að atburðurinn væri algjörlega úr karakter fyrir ákærða sem aldrei hefði gerst sekur um ofbeldisbrot áður. „Það er enginn sem virðist trúa því að hann hefði farið alla leið og framið þennan verknað.“

Verði dæmdur fyrir það sem hann sannanlega gerði

Þriðji liður fjallaði um ógnun ákærða gegn drengjunum tveimur sem sátu heima í sófa. Þórður Már sagði ákærða alla tíð hafa lýst yfir eftirsjá vegna þeirrar ógnar sem drengirnir upplifðu en um leið verið staðfestur í neitun sinni á að hafa beint byssu að þeim. Þórður Már sagði þann hluta sögu drengjanna aðeins hafa komið fram þegar þeir hefðu sérstaklega verið spurðir út í það í skýrslutöku lögreglu, aldrei að þeirra eigin frumkvæði.

Verjandinn sagði það ekki markmið ákærða að gera lítið úr upplifun drengjanna en hagsmunir hans væru að vera dæmdur fyrri þá háttsemi sem hann hefði gerst sekur um. Þórður Már minnti að við ógnvænlegar aðstæður gæti minni vitna brenglast og rifjaði upp nýlega frásögn íbúa í Kópavogi sem kvaðst hafa vaknað upp við að lögregla beindi byssu að höfði sér, en það hefði ekki reynst rétt.

Fyrstu skotin á sama tíma

Við vitnaleiðslur í gær var helst tekist á um fjórða ákæruliðinn, þar sem ákærða er gefið að sök að hafa reynt að bana tveimur lögregluþjónum sem leituðu skjóls við bíl í hlaðinu við húsið í Dalseli. Þar taldi verjandinn alvarlegar brotalamir á framburði lögregluþjóna og rannsókn tæknideildar lögreglu.

Í vitnaleiðslunum í gær bar lögregluþjónum ekki saman um staðsetningu bifreiðar þeirra eða við hvaða bíl þeir hefðu leitað skjóls. Þá hefði annar lögregluþjónanna ítrekað lýst þeirri upplifun sinni að hann hefði aðeins skotið að ákærða eftir að skotið hefði verið á hann fyrst tveimur skotum.

Fyrir dóminum lá álit hljóðmanns á upptöku úr myndavél lögreglubíls. Samkvæmt því var fyrstu skotunum úr byssu lögreglu og sakbornings skotið á nákvæmlega sama augnabliki. Næsta skot hefði einnig komið frá lögreglumanninum. Í þessari hrinu hefði alls verið skotið 14 skotum, þar af þremur af ákærða sem hefði auk þess að deila því fyrsta með lögreglu skotið því fimmta og áttunda.

Þórður benti einnig á að bæði á upptökunni og rannsókn tæknideildar kæmi fram að lögreglumaðurinn hefði skotið mun fleiri skotum en hann hélt. Þórður Már sagði þetta grundvallaratriði sem ótrúlegt væri að verjanda hefði þurft til að benda á þegar næg reynsla hefði átt að vera hjá lögreglu, allar forsendur rannsóknarinnar byggðust á að ákærði hefði skotið fyrst. Það hefði yfirmaður rannsóknarinnar viðurkennt fyrir dómi. Þórður Már benti á að af ellefu skotum lögreglu í þessari hrinu hefðu átta endaði í jeppabifreiðinni sem notuð var sem skjól. Verjandinn sagði rannsókn tæknideildar faglega unna, en skakka vegna rangra forsenda. Saksóknari svaraði að ekki skipti máli hvor hefði skotið fyrr og hafnaði því að rannsókn tæknideildar væri kolröng.

Deilt um staðsetningu lögreglu

Hluti varnar ákærða hefur byggst á því að strax þarna hafi hann verið búinn að ákveða að reyna að láta lögreglu skjóta sig til bana. Verjandinn benti á að þrátt fyrir fjölda skota lögreglu hefði ákærði ekki hreyft sig í dyragættinni. Þá hefði lögreglumaðurinn aldrei í samskiptum sínum við fjarskiptamiðstöð minnst á þessum tíma minnst á að ákærði hefði skotið að lögreglu, aðeins miðað haglabyssu að lögreglu sem hefði skotið að manninum en talið sig ekki hafa hitt.

Þórður Már undirstrikaði misræmi í framburði lögreglu og sagði lögregluþjón halda sig blákalt við fullyrðingar sínar þrátt fyrir að honum væru sýnd gögn sem sönnuðu annað. Í athugasemdum sínum kvaðst saksóknari ekki vera viss hvort þau hefðu hlýtt á sama vitnisburðinn. Lögreglumaðurinn hefði ekki afneitað neinum staðreyndum, heldur ítrekað að þetta væri sín upplifun.

Verjandinn sagði hins vegar að á þetta misræmi yrði að hafa í huga þegar fullyrðing lögreglunnar um að ákærði hefði beint byssu sinni að henni væri sannreynd. Reyndin væri hins vegar sú að margir metrar væru á milli skota ákærða. Allar staðsetningar skipti máli því þær breyti afstöðunni til muna.

„Hefði hitt ef hann hefði miðað“

Þórður Már benti einnig á að lögregluþjónninn hefði í gær sagst hafa kropið bakvið bíl og varið sig með skildi þegar hann skaut fyrst að ákærða en í öllum teikningum tæknideildar væri lögregla standandi. Miðað við lögreglumaðurinn hefði kropið væri það skot sem í átt að honum fór mörgum metrum fyrir ofan höfuð hans.

Þórður Már fullyrti að vanur veiðimaður, eins og ákærði, myndi ekki missa marks á þennan hátt af tólf metra færi. Reyndin væri að ákærði hefði aldrei séð lögregluna, enda hún verið í vari bakvið bílinn og ekki sýnileg.

Þá gagnrýndi Þórður Már að ekkert væri í skýrslu tæknideildar um hve líkurnar á að haglaskot valdi dauða, aðeins „verulegri hættu á líkamstjóni.“ Stjórnandi rannsóknarinnar sagði í dómi í gær að lækni þyrfti til í slíkt mat en hann ekki verið kallaður til.

Þórður Már vísaði til dómafordóma að jafnvel þótt hleypt væri af skotvopni, þá væri það ekki sönnun þess að ásetningur til að drepa neinn. Nauðsynlegt væri að hættueiginleikar væru skýrir og hafið yfir skynsamlegan vafa að byssu hafi verið miðað á fólk. „Hann hefði hitt ef hann hefði miðað, en ekki skotið yfir bílana. Það er þá einhver rjúpnaskytta til 30 ára,“ sagði Þórður Már.

Fyrir lokamálflutninginn játaði ákærði fimmta lið ákærunnar, um að hafa ógnað lögreglumanni, sem hann hafði áður neitað. Var það í aðdraganda þess að hann var skotinn. Þórður Már sagði að þrátt fyrir játninguna hefði komið fram við málflutninginn og lögreglumaðurinn átt að vita að á þessum tímapunkti væri það markmið ákærða að láta lögregluna skjóta sig til að binda enda á líf sitt.

Þarf endurhæfingu ekki fangelsi

Verjandinn gerði einnig grein fyrir varakröfu sakbornings, að verða dæmdur til vægustu rannsóknar, til dæmis falli refsing niður geti tilraun ekki leitt til fullframins brots eða mildun sé vilji linur. Rifjaði Þórður Már upp framburð vitna, meðal annars sálfræðings, um almennt milt geð ákærða. Um væri að ræða einstakling sem lent hefði í mótlæti og brotnað. Líta bæri á möguleg áhrif geðlyfs sem viðkomandi tók samkvæmt læknisráði á þessum tíma.

Þórður sagði ákærða hafa sýnt af sér fyrirmyndar hegðun í gæsluvarðhaldi og mikinn vilja til að bæta ráð sitt. Hann hefði ávallt verið hreinskilinn og ekki reynt að fegra sinn hlut í skýrslutökum heldur lýst mikilli með samúð sem þolendum, einkum lögreglumanninum sem skaut hann. Þá hefði hann jafnvel sagst hafa gengið lengra en raunin virtist hafa verið.

Þórður Már sagði ákærða þegar hafa þurft að þola refsingu með að vera skotinn í bringuna þannig honum hefði um tíma vart verið hugað líf. Hans bíði mikil endurhæfing vegna þessa. Hún þurfi að fara fram hjá fagfólki en ekki fangelsi. Þrátt fyrir atvik málsins sé ákærði ekki hættulegur og enginn samfélagslegur akkur í að hann sitji í fangelsi.

Misræmi í miskabótadómum

Þórður Már fór yfir forsendur þess að ákærði hafnaði upphæðum í miskabótakröfum, að hluta eða heild. Meðal annars teldi hann skilyrði miskabóta ekki uppfyllt hjá sambýlismanninum fyrrverandi og sjálfstætt mat vantaði hjá sambýliskonu hans, yrði sú krafa yfir höfuð tekin til greina. Réttargæslumaður sagði meingerð skipta máli, ekki einstaklingsbundin áhrif, skipta áhrif við mat á bótum. Vísaði hann til þess að milljónir hefðu verið dæmdar einstaklingum sem fengju ekki opinber störf sem væri hégómi miðað við það sem ræddi um í þessu máli.

Að lokum sagði dómari að dómur félli fyrr eða síðar, þótt það yrði væntanlega eftir einhverjar vikur, þegar hann hefði farið nánar yfir gögn málsins.