Skotfélag Austurlands heldur sitt fyrsta Íslandsmót
Tíðindi verða hjá Skotfélagi Austurlands (SKAUST) um helgina þegar félagið heldur sitt allra fyrsta Íslandsmeistaramót í riffilskotfimi. Þetta er jafnframt fyrsta Íslandsmeistaramótið í greininni um tíu ára skeið.
Mótið fer fram á skotsvæði félagsins í Eyvindarárdal við Mjóafjarðarveg 1. og 2. júlí og hefst keppnin klukkan 13 báða dagana. Á mótinu takast á einir níu keppendur og freista þess að vinna Íslandsmeistaratitilinn.
Hjalti Stefánsson, mótsstjóri, er fullur tilhlökkunar og hvetur þá fjölmörgu sem áhuga hafa á skotfimi hér austanlands að mæta en SKAUST er eitt fjölmennasta íþróttafélag fjórðungsins með um 330 félaga alls.
„Þetta er spennandi viðburður og ég vona að ég sjái fólk mæta og fylgjast með um helgina. Því miður er það svo að tímasetningin hittir svo illa á að engir héðan af austan taka þátt að þessu sinni og fyrir því ýmsar ástæður en það breytir ekki því að þarna eru flottir keppendur að reyna sig við toppaðstæður. Ég geng svo langt að segja að aðstaðan hér hjá okkur sé ein sú besta, ef ekki sú allra besta, á landinu öllu.“
Ástæða þess að ekki hefur farið fram Íslandsmót í greininni um tíu ára skeið hefur með vandræði Skotfélags Reykjavíkur að gera en það félag hefur hingað til haldið öll Íslandsmót í riffilskotfimi. Þar hafa staðið deilur um notkun á svæði þess félags á Kjalarnesi um langa hríð og lítt sést til lands.
Aðstaða SKAUST í Eyvindarárdal er með því allra besta hérlendis og þar verður fyrsta Íslandsmeistaratitlinum sem hampað er utan höfuðborgarsvæðisins lyft síðdegis á sunnudaginn. Mynd Hjalti Stefánsson.