Skip to main content

Skráðum kynferðisbrotamálum fækkar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. jan 2024 12:25Uppfært 10. jan 2024 12:25

 Skráðum hegningarlagabrotum í umdæmi lögreglunnar á Austurlandi fjölgaði umtalsvert á síðasta ári frá fyrra ári. Alls voru þau 125 talsins en voru 96 árið 2022. Að meðaltali voru skráð hegningarlagabrot 111 á árunum 2018 til 2022. 

Þetta kemur fram í afbrotatölum sem lögreglustjórinn á Austurlandi hefur birt, en um bráðabirgðatölur er að ræða. 

Af umræddum hegningarlagabrotum voru ofbeldisbrot flest á síðasta ári, alls 31 og fjölgaði verulega frá fyrra ári þegar þau voru 18. meðal fjöldi skráðra ofbeldisbrota á árunum 2018 til 2022 voru 21 og og hefur þeim heldur fjölgað síðustu ár. Flest voru þau árið 2021, alls 35 talsins. 

Jákvæðu fréttirnar eru þær að skráðum kynferðisbrotum fækkaði töluvert milli ára. Tilkynnt var um 5 slík brot í fyrra. Hins vegar var fjöldi tilkynntra kynferðisbrota árið 2022 óvenjulega mikill, alls 14 slík brot voru tilkynnt það ár, sem var mikil breyting frá árunum á undan. Árið 2021 voru skráð kynferðisbrot 6, einnig árið 2020, 7 talsins árið 2019 og árið 2018 var tilkynnt um 9 kynferðisbrot. Árið 2017 voru hins vegar skráð 14 kynferðisbrot, rétt eins og árið 2022. Þess skal getið, og það undirstrikað, að tölur síðasta árs eru bæði bráðabirgðatölur og segja heldur ekki alla söguna. Mjög algengt er að þolendur kynferðisbrota treysti sér ekki til að tilkynna þau strax og gæti fjöldi slíkra brota á síðasta ári, sem og fyrri ár raunar, því verið meiri en þessar tölur gefa til kynna. 

Fjöldi skráðra eignaspjalla var á síðasta ári 25 en árið áður voru skráð 14 eignaspjöll. Auðgunarbrot, til að mynda innbrot, fjárdráttur og fjársvik, voru skráð 27 á síðasta ári, þremur færri en árið áður, en á pari við tvö ár þar á undan. 

Þegar kemur að öðrum brotum má nefna að skráð umferðarlagabrot voru 1.390 á síðasta ári, tæplega eitt hundrað færri en árið áður. Flest umferðarlagabrotin voru vegna hraðaksturs, 972 sem er einnig öllu minna en árið áður þegar þau voru tæplega 1.100 talsins. Þá voru 30 teknir ölvaðir við akstur og 20 teknir vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna. Fjöldi annarra fíknilagabrota var 20 mál, og fækkaði þeim nokkuð frá árunum á undan. 

Skráð mál vegna heimilisófriðar voru á sjötta tug á síðasta ári, en ekki eru gefnar nákvæmar tölur í tölfræði lögreglunnar. Þar af var um ágreining milli skyldra eða tengdra aðila að ræða í tæplega 40 tilvikum en heimilisofbeldismál voru tæplega 20 talsins. Hefur slíkum málum farið fækkandi ár frá ári frá árinu 2020. 

Meðfylgjandi mynd er frá æfingu lögreglunnar á Egilsstöðum árið 2021.