
Skriða féll fyrir utan þéttbýlið í Seyðisfirði
Skriða féll í morgun nokkuð fyrir utan þéttbýlið í Seyðisfirði. Ekki er gert ráð fyrir að rýmingum í bænum verði aflétt í dag. Von er á mikilli úrkomu til miðnættis.
Skriðan sást um klukkan tíu í morgun. Hún fellur eftir árfarvegi sem liggur upp í Strandartind niður á Borgartanga. Vegurinn þangað út eftir er lokaður þannig ekki hefur enn verið hægt að meta umfang hennar.
Í nótt stíflaðist renna undir veginn út með Eskifirði. Að sögn Kristjáns Ólafs Guðnasonar, yfirlögregluþjóns, voru nóttin og morguninn að öðru leyti tíðindalaus.
Húsin fyrir utan björgunarsveitarhúsið á Seyðisfirði voru rýmd í gær. Þar er fyrst og fremst um að ræða atvinnuhúsnæði. Ekki er búist við að rýmingum þar verði aflétt í dag.
Engar ákvarðanir liggja fyrir um frekari aðgerðir. Hættustig er í gildi þannig vel er fylgst með og tilkynnt um aðgerðir. Gert er ráð fyrir mikilli úrkomu fram til miðnættis. Þess vegna er appelsínugul viðvörun í gildi á Austfjörðum.
Uppfært 11:40
Í uppfærslu frá ofanflóðadeild Veðurstofunnar segir að skriða hafi fallið að Norðfjarðarvegi innst í Fannardal og önnur í sunnanverðum Reyðarfirði. Reiknað er með að skriður haldi áfram að falla í dag. Gæta þarf varúðar við óvarða farvegi sem liggja í eða undir bröttum hlíðum og á vegum þar sem er skriðuhætta.