Skriðuklaustur fékk viðurkenningu fyrir nýsköpun í ferðaþjónustu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 22. nóv 2023 09:44 • Uppfært 22. nóv 2023 12:18
Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri hlaut viðurkenningu fyrir nýsköpun í ferðaþjónustu á ársfundi Samtaka aðila í ferðaþjónustu (SAF) í síðustu viku. Stofnunin hefur undanfarin ár gert tilraunir með tækninýjungar til að efla upplifun ferðafólks.
„Við kunnum vel að meta þetta. Þetta er klapp á bakið og það er gott að vita til þess að maður sé á réttri leið og eftir því sé tekið,“ segir Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar.
Stofnunin, sem kennd er við Gunnar Gunnarsson skáld, hefur á undanförnum árum nýtt tæknina til að miðla menningararfinum. Í sumar var til að mynda hægt að fá leiðsögn í auknum raunverleika (AR) frá Ugga litla, einni af sögupersónum Gunnars.
„Við höfum nýtt nýjustu tæknilausnir til að ná til fleiri gesta. Við stigum stór skref í miðlun á Gunnari og hans verkum og gert tilraunir með aukinn raunveruleika og hljóðleiðsagnir. Síðan má nefna leikjavæðingu ferðaþjónustunnar, til dæmis með ratleiknum „Leitin að gulli ormsins“ sem aðgengilegur er í gegnum smáforritið Turfhunt. Leiknum er ætlað að stuðla að því að fólk staldri lengur við og heimsæki staði sem það myndi annars ekki heimsækja,“ segir Skúli Björn.
Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar eru veitt á ársfundi SAF. Í ár hlaut Pink Iceland aðalverðlaunin en einnig er veitt viðurkenning sem Skriðuklaustur fékk. Áður hafa Vök Baths og Óbyggðasetur Íslands hlotið nýsköpunarverðlaunin sjálf.
Í umsögn dómnefndar SAF er komið inn á að Skriðuklaustur hafi um árabil verið vinsæll áfangastaður ferðamanna á Austurlandi. „Sumarið var gott þótt við hefðum verið til í að sjá fleiri Íslendinga. Þeir sóttu annað í köldum júlí. Annars var hér margt um manninn og komið gott jafnvægi á hlutina eftir farsóttartímana.“