„Skuggaleg“ staða starfsmannamála hjá Fjarðaáli

„Staðan er ekkert minna en skuggaleg nú þegar og þetta er að valda okkur gríðarlegum áhyggjum,“ sagði Einar Þorsteinsson, forstjóri Alcoa-Fjarðaáls, og vísaði þar í mikinn húsnæðisskort á Austurlandi öllu.

Einar var einn framsögumanna á opnum fundi Samtaka iðnaðarins og Austurbrúar í Valaskjálf í gær en yfirskrift fundarins var Öflugt atvinnulíf. Þar var efnt til samtals um stöðu og horfur atvinnulífs í fjórðungnum.

Alcoa-Fjarðaál er bæði stærsta álver landsins og langstærsti vinnustaðurinn á Austurlandi en eins og öðrum atvinnurekendum á svæðinu gengur alltaf verr og verr að ráða fólk til starfa. Orsakir þess er alvarlegur húsnæðisskortur.

Tók Einar sem dæmi að af heildarstarfsmannafjölda hjá álverinu í Reyðarfirði væru 7,3 prósent starfsmanna með lögheimili utan Austurlands. Staðan töluvert dekkri þegar aðeins var tekið tillit til nýrra starfsmanna álversins en 24 prósent þeirra eru með skráða búsetu annars staðar en á Austurlandi.

„Við þurfum gott og öflugt starfsfólk til að reka fyrirtækið. Ítrekað lendum við í því að fá starfsfólk sem reynir ítrekað að fá húsnæði fyrir sig og fjölskyldu sína en það tekst ekki og fólkið gefst upp. Við leysum hluta af þessum vanda með innfluttu vinnuafli en vandamálið er sömuleiðis til staðar þar.“

Forstjóri Alcoa-Fjarðaáls talaði tæpitungulaust á fundinum í gær. Skortur á húsnæði í landshlutanum væri stórt vandamál sem ráða þyrfti bót á sem allra fyrst. Mynd: Austurbrú

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.