Skýra þarf ýmislegt í matsáætlun vegna ofanflóðavarna á Seyðisfirði

Skipulagsstofnun hefur lokið við að grandskoða matsáætlun Múlaþings auk athugasemda sem fram komu vegna byggingar ofanflóðavarna í Neðri Botnum á Seyðisfirði.

Með matsáætlun Múlaþings, sem sjá má hér, voru kynnt áform sveitarfélagsins hvernig standa skyldi að gerð ofanflóðavarna undir hlíðum Strandartinds austanmegin fjarðarins en ekki síður hvernig staðið verði að mati á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdanna. Felast þau áform í að reisa leiði- og þvergarða fyrir ofan íbúðabyggðina sem fylgja nokkur veginn núverandi legu bráðavarnargarða sem komið var fyrir allt frá Búðará að Dagmálalæk á sínum tíma.

Varanlegar breytingar

Úttekt Skipulagsstofnunar leiðir í ljós að skýra þarf eitt og annað í umhverfismatsskýrslu umfram það sem fram kemur í framkominni matsáætlun sveitarfélagsins. Þar vantar til dæmis að gerð sé grein fyrir raunhæfum valkostum sem Múlaþing hefur skoðað en áætlunin gerir aðeins ráð fyrir þeim tveimur kostum að reisa varnargarða samkvæmt áætlun ellegar kaupa upp fjölda húsa á skilgreindu hættusvæði. Síðarnefndi möguleikinn óraunhæfur að mati sveitarfélagsins.

Flytja þarf töluvert af jarðefni úr Skaganámu að framkvæmdasvæði en áætlun Múlaþings gerir ráð fyrir að til að koma í veg fyrir mikla þungaflutning gegnum allan bæinn verði Fjarðaráin brúuð tímabundið við Langatanga eða Þórsmörk meðan á því stendur. Gerir Skipulagsstofnun engar athugasemdir við þau áform en ítrekar að umhverfismat vegna nýs vegar taki til landnotkunar, gróðurs og fugla auk lífríkis Fjarðarár.

Rask og hávaði

Brýnt sé að vegna mikils rasks vegna framkvæmdarinnar og þeirri staðreynd að varanlegir sex til átta metra háir snjóflóðagarðar breyti gjarnan ásýnd og yfirbragði bæja verði ljós- eða líkanmyndir að vera vel rökstuddar og endurspegla breytingar á ásýnd frá þeim íbúðarhúsum sem næst standa. Að sama skapi sé ljóst að hávaðamengun verði töluverð meðan á framkvæmdinni stendur. Telur Skipulagsstofnun ljóst að liggja þurfi fyrir rökstutt mat um áhrif hávaða og ónæðis á íbúa og gera þurfi grein fyrir öllum mótvægisaðgerðum.

Síðast en ekki síst bendir stofnunin á mikilvægi þess að allar framkvæmdir verði kynntar íbúum bæjarins og sérstaklega þeirra sem búa í næsta nágrenni.

Meðfylgjandi skýringarmynd úr matsáætlun Múlaþings vegna fyrirhugaðra ofanflóðagarða undir hlíðum Strandartinds. Skjáskot

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.