„Sláandi lágar“ fjárhæðir koma í hlut Austurlands vegna rannsókna- og þróunar

Skattafrádráttur vegna rannsóknar- og þróunarverkefna hefur síðasta áratuginn því sem næst eingöngu skilað sér til höfuðborgarsvæðisins. Hið sama má segja um úthlutanir úr tækniþróunarsjóði. Sáralítið hlutfall hefur runnið til landsbyggðarinnar og hvað minnst til Austurlands. Þingmaður segir sláandi hvað lítið skili sér út á land og kallar eftir bættri ráðgjöf.

Síðasta áratug hafa krónurnar sem komið hafa í hlut Austurlands í skattafrádrátt vegna rannsóknar- og þróunarverkefna verið afar fáar, en þó alltaf einhverjar. Hið sama má segja um skattafrádrátt vegna erlendra sérfræðinga, allt frá árinu 2017 þegar slíkur frádráttur var fyrst veittur hefur hann nálega allur runnið til Reykjavíkur og Kragans.

Þetta kemur í ljós þegar svör fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Líneikar Önnu Sævarsdóttur, þingkonu Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, er skoðað. Líneik Anna lagði fram fyrirspurnir á Alþingi í haust þar sem hún óskaði svara um skiptingu skattafrádráttar eftir atvinnugreinum og landshlutum síðustu ár.

Fjárhæðir sem skipta máli


Skattafrádráttur vegna rannsóknar- og þróunarverkefna byggir á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, sem sett voru árið 2009. Markmið laganna var að efla rannsóknar- og þróunarstarf og bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja, með því að veita þeim rétt til skattafrádráttar vegna kostnaðar við nýsköpunarverkefni.

Samkvæmt lögunum eiga nýsköpunarfyrirtæki sem uppfylla skilyrði þar um rétt á frádrætti 20 prósenta álagðs tekjuskatts, reiknað út frá ákveðnum hámarkstölum. Um töluverðar fjárhæðir getur verið að ræða.

Skemmst er frá því að segja að ekki hefur króna komið í hlut Austurlands vegna skattafrádráttar vegna rannsókna og þróunar. Á sama tíma hafa tæpir 34,5 milljarðar farið til Reykjavíkur og tæpir 17 milljarðar í kragann. Vestfirðir og Suðurland eru í sömu stöðu og Austurland.

Þá hefur frá árinu verið veittur skattaafsláttur vegna erlendra sérfræðinga. Aftur ber Austurland ekkert úr býtum og hið sama má segja um Norðurland vestra, Suðurland, Vestfirði og Vesturland. Á sama tíma nema endurgreiðslur til fyrirtækja í Reykjavík rúmum tveimur milljörðum króna.

Rétt er að halda til haga að ekki er hægt að rekja hverja krónu til ákveðins landssvæðis. Það á við um báða flokka.

„Ég átti von á að það væri lágt hlutfall sem rynni austur og vestur, kannski eitthvað meira í kringum Akureyri, en þetta var eiginlega ennþá meira en ég hafði vænst. Þetta eru sláandi lágar tölur,“ segir Líneik Anna.

Ábendingar um ójafna dreifingu


Líneik Anna segir jafnframt að fyrirspurn hennar hafi ekki orðið til í tómarúmi, hún haefði ítrekað fengið ábendingar um hversu ójöfn dreifing skattafrádráttarins væri á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis.

„Þarna er verið að úthluta ákveðnum takmörkuðum gæðum, með millifærslu til nýsköpunar og þróunar, en í gegnum ríkið. Það er mjög mikilvægt að það nýtist um land allt. Staðreyndin er auðvitað sú að nýsköpun byggir mjög mikið á okkar styrkleikum og auðlindanýtingu, og þess vegna þarf hún að vera í sambúð við atvinnuvegina, á hverjum stað.“

Hið sama má segja um aðra fyrirspurn Líneikar Önnu sem hún lagði einnig fram í haust, um úthlutanir úr Tækniþróunarsjóði. Þar kom í ljós að 80% allra úthlutana sjóðsins runnu til höfuðborgarsvæðisins á áratugar tímabili. Aðeins átta af 1.217 úthlutunum fóru austur á land. Hvergi nema á Vesturlandi var hlutfallið jafn lágt.

Tryggja þarf fólki og fyrirtækjum aðstoð


Líneik Anna segir mikilvægt að þessir peningar dreifist yfir landið. Til þess að svo megi verða bendir hún á virk háskólastarfsemi þurfi að vera í öllum landshlutum til að búa til teningar við nýsköpunarstarf fyrirtækja. Í öðru lagi þurfi ráðgjöf til einstaklinga og smærri fyrirtækja þannig þau geti hagnýtt sér styrkina. Í þriðja lagi skipti markaðsstofur landshlutanna máli, til dæmis við þróunarverkefni í ferðaþjónustu.

Líneik Anna segir það hlutverk ríkisins að tryggja störf til ráðgjafar og menntunar um allt land til að þjónusta fólk og fyrirtæki. Hún segist sannfærð um að fjöldi verkefna og fyrirtækja á landsbyggðinni hafi ekki sótt um styrkina, þrátt fyrir að uppfylla skilyrði, þar sem þekkinguna skorti.

Byggir á úttekt sem birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.






Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.