Skip to main content

Slæm tíð veldur töfum á tankskreytingum á Reyðarfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. jún 2025 10:44Uppfært 30. jún 2025 10:51

Töluverð vætutíð hefur valdið töfum á því að því ljúki að myndskreyta sementstankana á Reyðarfirði verði en upphaflega var ráð fyrir gert að því færi að ljúka um þessar mundir.

Það er listamaðurinn Stefán Óli Baldursson, gjarnan þekktur sem Mottan, sem fékk það verkefni í vor að myndskreyta gráu tankana sem gnæfa hátt í bænum og þykja takmarkað augnayndi. Hófst hann handa snemma í júní en töluverð vætutíð síðustu vikurnar hefur valdið vandræðum að hans sögn.

„Það er lítið vit í að vera að myndskreyta þegar rignir því það þýðir bara að það koma taumar í málninguna og það verður fljótt ljótt. Það hefur því kostað nokkurn tíma og á þessu stigi á ég ekki von á að ná að ljúka verkinu fyrr en að þremur til fjórum vikum liðnum ef það fer að stytta upp að ráði.“

Skreytingarnar taka allar mið af lífinu í bænum á stríðsáratímanum og fór töluverð undirbúningsvinna í að finna heppilegar myndir sem sóma myndu sér vel á háum tönkunum.

Sjálfur segir Stefán Óli að hann hafi aldrei tekið að sér að mála slíka tanka áður en hann hefur mikla reynslu af gerð vegglistaverka. „Þetta er aðeins flóknara en að mála á veggi því tankarnir eru bæði stórir og ávalir sem taka þarf með í myndina. En allt gengur þetta bærilega fyrir utan þessa bleytu alla og það verður mikill munur á þegar þessu verður lokið.“

Gróf mynd komin að listaverkunum sem prýða eiga sementstankana til framtíðar íbúum og gestum til yndisauka. Mynd AE