Skip to main content

Slegist um gamalt málverk af Reyðarfirði á uppboði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. jún 2023 14:51Uppfært 27. jún 2023 15:16

Hæsta boð, í gamalt málverk af Reyðarfirði sem er á uppboði, er áttfalt hærra heldur en verðmat uppboðshaldara. Engar augljósar skýringar eru á eftirspurninni því ekkert er vitað hver málaði verkið.


Olíumálverkið var metið á 20 – 30.000 krónur af Gallerí Fold. Tíu dagar eru síðan fyrsta boð barst í myndina, 10.000 krónur. Á sunnudag var upphæðin komin í 39.000 krónur. Í morgun færðist fjör í leikinn og er hæsta boð nú 160.000, sent inn klukkan 12:30.

Sólveig Vilhjálmsdóttir, deildarstjóri netuppboða hjá Gallerí Fold, segir engar augljósar skýringar á vinsældum myndarinnar. Myndin er ómerkt og því ekki vitað hver málarinn er. „Þetta er gömul, falleg mynd sem kann að vera ein helsta skýringin,“ segir Sólveig.

Hún segir að stöku sinnum færist fjör í uppboð. Ekki þurfi nema tvo bjóðendur sem langi í verk til að mynda samkeppni sem þar með ýti upp verðinu. Miðað við skráninguna á vef Gallerís Foldar hafa þrír einstaklingar keppst um myndina frá Reyðarfirði.

Líklegast er að einhverjar tilfinningar séu í spilinu. „Þetta útsýni snertir eflaust við fólki að austan sem þekkir landslagið. Í einhverjum tilfellum hefur svona mynd verið upp á vegg hjá ömmu eða afa.“

Myndin virðist máluð frá Eskifirði og horft þaðan út, Hólmanesið er hægra megin í myndinni, síðan fjöllin í sunnanverðum Reyðarfirði og loks glittir í Skrúðinn í fjarska. Á firðinum eru seglskútur. Um er að ræða olíuverk, 24x47 sm. að stærð.

„Verðmatið okkar er mikið byggt á reynslu, hversu dýrt sambærilegt verk hafa áður selst. Út frá mótífinu og aðferðinni getum við giskað á aldurinn. Við vitum að upp úr aldamótunum 1900 komu hingað erlendir málarar, einkum danskir. Við höfum fengið myndir eftir þá af íslenskum fjörðum þar sem eru seglbátar. Í einhverjum tilfellum hefur verið málað eftir teikningum eða ljósmyndum. Áður fyrr máluðu sátu menn hlið við hlið og máluðu eftir sömu forskriftinni,“ segir Sólveig.

Uppboðið stendur til klukkan 20:12 í kvöld, þó með þeim formerkjum að ef boð berst þegar innan við þrjár mínútur eru eftir af uppboðstímanum framlengist uppboðið um þrjár mínútur.

Mynd: Gallerí Fold