Slökkvilið kallað út vegna elds í gömlum heyrúllum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 07. júl 2023 21:34 • Uppfært 07. júl 2023 21:34
Slökkvilið Múlaþings var kallað út annan daginn í röð. Að þessu sinni barst eldur úr rusli yfir í gamlar heyrúllur við bæ á Úthéraði.
Slökkviliðið var upphaflega kallað út klukkan 18:45 vegna gróðurelds. Fljótlega varð ljóst hvernig í hlutunum lá. Verið var að brenna rusli en eldurinn barst í heyrúllurnar.
Að sögn Haraldar Geirs Eðvaldssonar, slökkviliðsstjóra, var mikill hiti í rúllustæðunni og talsverðan reyk lagði frá svæðinu. Eldurinn blossaði upp þegar vatni var sprautað á rúllurnar og var því gripið til þess ráðs að kæfa eldinn með fargi.
Óheimilt er að brenna hvort heldur sem er rusli eða gömlum heyrúllum.
Nánast nákvæmlega sólarhringur var liðinn frá síðasta útkalli þegar kallað var út í kvöld. Í gær slökkti slökkviliðið í bíl á Mjóafjarðarheiði.
Mynd: Aðsend