Skip to main content

Smáframleiðendur berjast við að koma vörum í verslanir

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. apr 2023 14:47Uppfært 19. apr 2023 14:48

Á Austurlandi er fjöldi smárra matvöruframleiðenda. Vörur þeirra eru þó lítt sýnilegar í dagvöruverslunum í fjórðungnum.


Þetta kemur fram í umfjöllun í nýjasta tölublaði Austurgluggans. Blaðið ræddi við sjö smáframleiðendur sem kvörtuðu undan því hversu erfitt væri að koma vörunum í verslanir en þeir voru þó ekki til í að koma framundir nafni. Þeir sögðust óttast að það gerði þeim enn erfiðra um vik að koma vörum sínum á framfæri.

Athugun blaðsins leiddi í ljós að í verslunum Bónuss, Samkaupa og Krónunnar á Austurlandi heyrði það til undantekninga ef austfirskar vörur voru í verslunum þeirra á svæðinu. Á landsvísu ráða þessir aðilar yfir 80% matvörumarkaðarins.

Samtök smáframleiðenda hafa barist fyrir að koma vörum minni framleiðenda á framfæri. Framkvæmdastjóri samtakanna er Oddný Anna Björnsdóttir að Gautavík í Berufirði, en hún vann um tíma sem ráðgjafi hjá Krónunni.

Hún segir að stundum séu meiri líkur að komast í vörur smáframleiðenda í búðum á höfuðborgarsvæðinu en þar hafa stóru verslanirnar verið að prófa sig áfram, til dæmis með matarbúri Krónunnar en bendir einnig á að stundum þurfi framleiðendur sjálfir að leggja í meiri vinnu.

„Ég hef reyndar heyrt það líka að það sé ekki auðvelt að ná sambandi við verslanir hér austanlands, en almennt er mikill áhugi á innlendri framleiðslu og allt okkar starf hér hjá samtökunum gengur út á að einfalda boðleiðir og auðvelda smáframleiðendum að koma sínu á framfæri.

Það gengur vel að mínu mati en auðvitað eru ekki allir að fá svör. Ég veit líka að það eru framleiðendur sem ekki eiga til það magn sem til þarf til að komast í stærri verslanir á meðan aðrir halda að það dugi að senda einn póst.

Það eru, með öðrum orðum, fjölmargir hlutir sem skipta hér máli, en raunin hefur líka verið að áhuginn er mun meiri fyrir sunnan. Það hefur verið reynt að brydda upp á svona hér fyrir austan en það gefist illa á meðan fjölmargar sérverslanir fyrir sunnan geta ekki fengið nóg,“ segir hún.

Lengri útgáfa birtist í nýjasta tölublaði Austurgluggans. Hægt er að panta áskrift hér.