Skip to main content

Snjallmælar stór ástæða snarhækkandi rafmagnsreikninga

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. mar 2025 11:30Uppfært 19. mar 2025 11:37

Þó ekki sé það eina ástæða snarhækkandi rafmagnsreikninga hjá velflestu fólki og fyrirtækjum eru það að líkindum snjallmælarnir sem eru að hafa þar töluverð áhrif til hækkunar.

Nánast einu gildir inn á hvaða íbúasamfélagshóp austanlands farið hefur inn á á samfélagsmiðlum síðustu vikurnar að mál málanna er undantekningarlítið síhækkandi rafmagnsreikningar sem íbúar og fyrirtæki hafa verið að fá til sín undanfarið. Allmargir lýsa hækkunum upp á tugi þúsunda króna á skömmum tíma.

Slíkar hækkanir enn alvarlegri en ella sökum þess að raforkan lengi verið í allra dýrasta kanti fyrir fjórðunginn miðað við landið allt en ekki síður sökum þess að margir íbúar eru ekki með aðgang að hitaveitu og þurfa því að kynda hús sín með öðrum leiðum eins og rafmagni.

Raunafl og launafl

Fleira kemur þó til að mati Heimis Snæs Gylfasonar, rafvirkja og forstjóra Multitask í Neskaupstað, og þar ekki síst nýir snjallmælar sem víða er búið að setja upp í stað gömlu skífumælanna. Stór munur er nefninlega á því hvað þessir nýju mælar mæla umfram þá gömlu.

„Gömlu skífumælarnir mældu raunafl og raunálag rafmagns á hverjum stað fyrir sig meðan þessir nýju mælar mæla jafnframt svokallað launafl sem er í raun ónothæft afl. Segja má að nú séu neytendur með snjallmæla farnir að greiða fyrir tap innan kerfisins sem áður var ekki tekið með í reikninginn.“

Munurinn á raunafli og launafli er nokkuð tæknilegs eðlis en gróflega má segja að sá rafstraumur sem úr vegg í tengil kemur er kallaður riðstraumur. Sá sveiflast fram og aftur mörgum sinnum hverja sekúndu. Spenna í tenglinum sjálfum sveiflast sömuleiðis á svipaðan hátt. Þar sem straumur og spenna koma saman verður til afl sem er margfeldi straums og spennu. Það afl skiptist í raunafl og launafl en það fyrrnefnda keyrir öll vélar og tæki í notkun innan veggja á viðkomandi stað. Launaflið knýr ekki nokkurn hlut en er nauðsynlegt því það viðheldur segulsviði í kerfinu svo hlutir á borð við aflspennar og rafmótorar vinni eins og þeim er ætlað að gera. Launaflið eykst stórum ef rafmagnskaplar eru í jörð eða notkun er mikil á sparperum eða spennubreytum á heimilinu eða vinnustaðnum.

Það er þetta aukalega launafl sem snjallmælar taka með í reikninginn umfram gömlu skífumælana. Þeir mæla þannig meiri notkun og afleiðing þess eru hærri reikningar.

Snjalltækin alltaf í gangi

Heimir Snær bendir einmitt á að mörg nýrri tæki noti heilmikla orku þó þau séu ekki í beinni notkun. Dæmi um slíkt er í velflestum nýlegum snjallsjónvörpum og skjám en vonlaust er að slökkva á þeim flestum að fullu nema beinlínis taka þau úr sambandi. Slík tæki fara bara í bið þó tæknilega sé „slökkt“ á þeim. Þau eru því alltaf að éta rafmagn þó ekki sé um beina notkun að ræða.

Fleiri þættir skipta hér máli. Gagnrýnir Heimir Snær til dæmis að vonlaust sé orðið að fá nokkrar upplýsingar um hvort Austfirðingar séu að fá gott rafmagn eða slæmt. Töluvert meira tap sé á rafmagni sem lagt er í jörð umfram það sem fer um línur hátt yfir jörðu sem dæmi.  Áður fyrr hafi Rafmagnseftirlit ríkisins haft auga á slíkum hlutum en seinna meir tók einkafyrirtæki það eftirlit yfir og þaðan litlar upplýsingar að hafa þó eftir sé leitað.