Snjallsímabann á skólatíma gefið góða raun
Algert snjallsímabann eða veruleg takmörk á símanotkun nemenda á skólatíma er nú raunin í velflestum grunnskólum Austurlands og þrátt fyrir stöku óánægjuraddir er sú ráðstöfun heilt yfir að ganga vel og hafa jákvæð áhrif að sögn skólastjórnenda.
Í Breiðdals- og Stöðvarfjarðarskóla hefur lengi verið bann við að yngstu nemendurnir mættu koma með snjallsíma sína í skólann en slíkt gilti ekki fyrir nemendur á unglingastigi fyrr en í byrjun ársins. Þá tóku skólastjórnendur þá ákvörðun að eldri nemendur þyrftu að afhenda kennurum síma sína í byrjun skóladags en fengju þá aftur til baka að skóladegi loknum.
Þetta fyrirkomulag segir Steinþór Snær Þrastarson, skólastjóri, hafa tekist vel og verði framhaldið. Þurfa því nemendur frá 5. til 10. bekk að láta síma sína af hendi enda hafi raunin verið síðustu árin að tækin hafi verið víbrandi öllum stundum sem hafi leitt huga nemenda frá skólaverkefnum og fjölgað klósettferðum til muna.
„Það gekk mjög vel að innleiða símaskáp/kassa hjá okkur [fyrir síma nemendanna.] Að sjálfsögðu eru svona breytingar sumum erfiðar til að byrja með en heilt yfir þá voru nemendur sáttir og hefur þetta gengið smurt. Nemendur mæta í skólann og þeir koma beint með símana sína í skáp hjá okkur áður en þeir fara inn í stofu og sækja þá svo að skóladegi loknum. Þeir foreldrar sem hafa tjáð sig um þetta hafa verið ánægðir og við ætlum að halda áfram með þetta sama fyrirkomulag.“