Snjallsímanotkun barna og unglinga verulegt áhyggjuefni

Einn skipuleggjandi málþings um geðheilbrigði sem fram fór á Egilsstöðum í gær telur brýna þörf að grípa til aðgerða vegna snjallsímanotkunar barna og unglinga.

Bjarni Þór Haraldsson, forsprakki Tónleikafélags Austurlands og einn skipuleggjenda málsþingsins Betri geðheilsa - Bætt samfélag, sagðist í opnunarávarpi sínu hafa sífellt meiri áhyggjur af takmarkalausri snjallsímanotkun unga fólksins. Eitthvað þarf að gera til að ná tökum á þessu vandamáli áður en það verður enn stærra. Allmargar rannsóknir hafa ítrekað sýnt fylgni milli mikillar samfélagsmiðlanotkunar og kvíða og vanlíðunar ungs fólks.

„Þetta er svo ofboðslega stór breyting allir þessir samfélagsmiðlar og símar sem fólk er með í höndunum nánast allan daginn. Hegðunarbreytingin sem orðið hefur frá því að þessir símar komu fyrst fram er gríðarlega mikil og ég sé þetta sjálfur hvern einasta dag. Mér finnst heldur ekki eðlilegt að það sé svona ofboðslegt aðgengi að fólki gegnum samfélagsmiðlana sem allir sem einn dæla endalausu efni að krökkunum. Svo veit ég sjálfur sem svona tölvukarl að allir þessir aðilar eru búnir að kortleggja hegðun hvers einasta notanda á netinu og það engin tilviljun að þær auglýsingar sem hver og einn fær eru nánast sérsniðnar í hverju tilviki. Inn á þetta spila svo fyrirtækin. Þetta gerir alla svo ægilega háða því að vera alltaf í sambandi en það rafrænt á sama tíma og mannleg samskipti minnka jafnt og þétt. Þetta er alls ekki góð þróun.“

Málþingið var feykivel sótt og þurfti að fresta byrjun þingsins þar sem ekki voru næg sæti fyrir alla gesti. Boðið var upp á fjölmörg athyglisverð erindi úr ýmsum áttum en öll með brennipunkt í geðheilsu. Austurglugginn mun gera þinginu ítarleg skil í næsta blaði.

Bjarni Þór hefur löngum haft áhuga á geðheilsumálum og var himinlifandi með frábæra aðsókn að málþinginu í gær. Það sýni að fleiri deili þeim áhuga. Mynd AE

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.