Orkumálinn 2024

Snjóflóð fell á fjölbýlishús í Neskaupstað - Uppfært 8:35

Snjóflóð, sem féll úr Nesgili ofan Neskaupstaðar í morgun, endaði á fjölbýlishúsi við Starmýri. Umfangsmikil rýmingaraðgerð er þar nú hafin. Hús hefur einnig verið rýmt á Seyðisfirði.

Staðfest er að tvö flóð hafa fallið á Norðfirði í morgun. Annað innan við varnargarðana ofan Urðarteigs, yfir veg og í sjó fram.

Samkvæmt upplýsingum frá ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands féll hitt skömmu síðar úr Nesgili, fyrsta gilinu utan við varnargarðana ofan bæjarins. Staðfest er að það féll á fjölbýlishús við götuna Starmýri. Bílar lentu á blokkinni og eru skemmdir á henni.

Umfang flóðsins er enn óljóst, en það virðist hafa lent að minna leiti á nálægum húsum. Verið er að ganga úr skugga um að ekki hafi orðið slys á fólki.

Gripið hefur verið til rýmingar á reitum 16 og 17 í Neskaupstað. Samkvæmt rýmingarkorti ná þau yfir göturnar Hrafnsmýri, Gauksmýri, Valsmýri, Starmýri, Víðimýri, Nesbakka og Gilsbakka. Meðal bygginga á svæðunum er Umdæmissjúkrahús Austurlands. Samkvæmt nýjustu upplýsingum stendur ekki til að rýma það heldur byggðina ofan Mýrargötu en sjúkrahúsið er neðan hennar.

Þá er búið að ákveða að rýma eitt íbúðarhús á Seyðisfirði undir Bjólfi.

Allt viðbragð á Austurlandi hefur verið kallað út til aðstoðar á Norðfirði. Vegagerðin vinnur að því að opna leiðir þannig að hægt sé að koma aðstoð þangað.

Austfirðingum hefur almennt verið ráðlagt að halda sig heima meðan aðstæður eru kannaðar í fjórðungnum. Víða er mikil ófærð og skólahaldi verið aflýst eða foreldrar hvattir til að hafa börn sín heima ef kostur er.

Mikill snjór er á svæðinu eins og meðfylgjandi mynd, sem tekin var í Neskaupstað í morgun, sýnir. Hún sýnir ekki snjóflóðasvæðið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.