Snjóflóðahætta á Seyðisfirði og Fjarðarheiðin lokuð

Óvissuástandi var lýst yfir á Seyðisfirði í morgun vegna snjóflóðahættu. Á sama tíma hefur vegurinn yfir Fjarðarheiði verið lokaður síðan um miðjan dag í gær. Björgunarsveitarmaður segir umræðu um jarðgöng aukast við svona kringumstæður.

„Umræðan kemur alltaf fram þegar heiðin lokast eða er erfið. Hún er mun oftar erfið heldur en lokuð,“ segir Helgi Haraldsson, formaður björgunarsveitarinnar Ísólfs á Seyðisfirði.

Veðurstofan lýsti um klukkan níu í morgun yfir óvissustigi vegna ofanflóðahættu á Seyðisfirði. Mikil snjókoma var þar í nótt, um 5 mm á klukkustund að meðaltali frá því um ellefu í gærkvöldi fram til sjö í morgun. Á sama tíma hefur Fjarðarheiðin verið lokuð vegna ófærðar frá klukkan 16 í gær. Samkvæmt tilkynningum Vegagerðarinnar er mikill snjór á heiðinni.

Snjóflóðahættan er metin mest undir Strandartindi. Þar er atvinnusvæði en afar takmörkuð íbúabyggð. Ekki er gripið til aðgerða á borð við rýminga fyrr en á næsta stigi, hættustigi, og því anda Seyðfirðingar með nefinu þótt þeim þyki staðan óþægileg.

„Þetta er öryggisleysi, það verður erfitt ef það þarf í sjúkraflutning. Fólk hefur varann á sér en það þarf fleiri daga í lokun og meiri hættu til að það verði verulega órólegt.“

Helgi segir sér ekki kunnugt um nein snjóflóð enn. Dregið hefur úr úrkomunni og á sama tíma minnkar ofanflóðahættan.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.