Skip to main content

Snjóflóðavarnirnar ofan Neskaupstaðar virkuðu betur en reiknað hafði verið með

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. apr 2023 15:56Uppfært 25. apr 2023 16:35

Þær snjóflóðavarnir sem reistar hafa verið á undanförnum árum fyrir ofan Neskaupstað sönnuðu gildi sitt í snjóflóðahrinunni í lok mars og reyndust jafnvel betur en reiknað var með. Nýjar upplýsingar um eðli snjóflóða þýðir að endurskoða þarf hönnun varna.


Þetta kom fram í máli Kristínar Mörtu Hákonardóttur, snjóflóðaverkfræðings hjá Verkís, á íbúafundi í Neskaupstað um snjóflóðin. Hún hefur unnið við hönnun varnarmannvirkjanna og kom austur þriðjudaginn 28. mars, daginn eftir að snjóflóð féllu á fjölbýlishús í Starmýri.

Hún sagði þann dag hafa verið létti að sjá að ekki væri snjór á bakvið varnargarðana eftir þau flóð sem féllu á mánudeginum. Virkni þeirra var því í fullu lagi en ef flóð eru fallin á bakhlið varnargarða þarf annað hvort að moka þeim í burtu eða rýma hús ef hættan er ekki liðin hjá.

Vísindafólk nýlega byrjað að rannsaka iðufaldana


Kristín fór yfir þá þróun sem orðið hefur í rannsóknum á eðli snjóflóða og áhrifum þess á hönnun varna. Þær hafa til þessa verið miðaðar við að verjast þéttum kjarna snjóflóðanna, sem oft er 2-5 metrar á þykkt og ferðast á 30-80 m/s hraða. Ofan á kjarnanum er kóf sem er mun léttara og hefur lítil áhrif á varnarmannvirki.

Á síðustu 5-7 árum hafa svissneskir sérfræðingar veitt athygli svokölluðum iðufaldi sem er á milli kófsins og kjarnans í þéttleika. Eðli hans er öðruvísi og einkennist af ókyrrð þar sem inni í honum eru svæði með meiri massa en önnur. Kristín Marta sagði iðufaldinn mögulega röð af hvirflum eða annars konar ókyrrð. Eftir því sem hraði snjóflóðsins er meiri því lengri verður iðufaldurinn sem aftur fer saman með lengd fallsins.

Hérlendis áttuðu vísindamenn sig fyrst á þessum iðufaldi þegar hluti snjóflóðs kastaðist yfir varnargarða á Flateyri í janúar 2020. Leiðigarðar beindu þétta kjarnanum út í snjó en iðufaldurinn fór „auðveldlega“ yfir varnargarðana. Kristín Marta sagði svipað hafa gerst núna þegar snjóflóð sem ekki voru mikil að umfangi ollu miklum skaða á húsunum við Starmýri. Ljóst sé að gluggar verji lítt gegn iðufaldinum sem geti farið í gegnum hús komist hann á annað borð inn. Dæmi séu um að þök hafi vippast af tréhúsum. Í Neskaupstað hafi bifreiðar færst 20-30 metra undan iðufaldinum sem hafi verið lengra en á Flateyri.

„Þétti kjarninn er áfram hættulegastur en við getum ekki horft framhjá iðufaldinum því hann veldur tjóni eins og við höfum séð,“ sagði Kristín Marta og bætti við að iðufaldurinn skapaði öðruvísi álag á varnarmannvirki en þekkst hefði. Hann ylli lotubundnum höggum sem líklegri væru en eitt stórt til að brjóta niður varnarmannvirki. Á Flateyri væri meðal annars horft á hönnun varnargarðanna sem væru ekki brattir, en brattari garðar virtust ráða betur við iðufaldinn.

Keilurnar tóku mesta kraftinn


Kristín Marta sagði snjóflóðavarnirnar í Neskaupstað hafa virkað betur en reiknað var með í þurrum snjóflóðum, eins og féllu í lok mars. Ofan flestra varnargarðanna eru keilur sem brjóta upp snjóflóð. Keiluraðirnar eru tvær og virka þannig að þegar flóð lendir á efri röðinni stöðvast hluti þess meðan efri hlutinn kastast upp í loftið. Neðri röðin á að taka við frákastinu eða stöðva það sem rennur áfram. Dugi það ekki til ætti restin að stöðvast endanlega á varnargörðum.

Úr Drangagili féll stórt snjóflóð í vikunni sem sjónarvottar sáu kastast af efri keiluröðinni. Kastboginn fór trúlega 25 metra upp í loftið og 70 metra áfram. Af ummerkjum að dæma virðist það snjóflóð, sem var nokkuð stórt, hafa stöðvast nær alfarið á neðri keiluröðinni.

Þrjár eða fjórar keilur í efri röð tóku kraftinn úr iðufaldi flóðs sem féll úr Tröllagili. Lítil tunga úr því virðist hafa náð niður í neðri röðina og nær ekkert að varnargarðinum. Lausasnjóflóð úr Skágili olli miklum skaða á skógræktarsvæði Norðfirðinga. Tvær keilur tóku kraft úr því en annars fór það óhindrað á varnargarð og barst upp á það. Á varnargarðinum var 1 metra þykkur flóðsnjór en ekkert barst niður neðri hlið varnargarðsins sem sýnir að allur kraftur hafi verið farinn úr flóðinu. Þar þarf að kanna hvort bæta þurfi við keilum.

Jarðvegskeilurnar stóðust álagið


Kristín Marta útskýrði að keilunum væri ætlað að brjóta niður miðju snjóflóðs, jaðrar þeirra væru máttlausari og því ættu garðarnir að ráða við þá. Hún sagði keilurnar hafa staðist það álag sem iðufaldurinn skapaði um leið og fyrstu niðurstöður bentu til þess að mikilvægur lærdómur hefði fengist um virkni varnargarða gegn honum.

„Við erum enn að læra á iðufaldinn. Sérfræðingar eru ekki sammála um hvernig varnarmannvirkin virka gegn honum. Afl iðufalds dvínar verulega af fyrstu niðurstöðu. Við sjáum líka að varnirnar halda fullri virkni og geta mætt þétta kjarnanum því það er svo lítill snjór í iðufaldinum. Ofan Neskaupstaðar eru jarðvegskeilur og þær stóðust álagið. Í Frakklandi hafa steyptar keilur brotnað í svona flóðum.“ Harpa Grímsdóttir frá Veðurstofunni sagði að meiri skilningur yrði að fást við hvaða aðstæður iðufaldurinn myndaðist því hann kæmi fram þar sem ekki væri endilega von á stórum snjóflóðum.

Skoða þarf hvort einhverjar skemmdir hafi orðið á vörnunum ofan Neskaupstaðar og gera við þær ef svo er. Ljóst er að einhverjar endurbætur þarf að gera á keilunum undir Drangagili þar sem grjót úr þeim kastaðist upp á varnargarðinn. Eðlilegt er þó að þær hafi aðeins gefið eftir í ljósi þess að þær voru þær fyrstu hérlendis.

Grindur virka betur en net


Hluti varnarmannvirkjanna í Neskaupstað eru upptakastoðvirki, net eða grindur efst í fjöllunum, sem eiga að stöðva snjóflóð í fæðingu. Almennt virðast þær varnir hafa virkað og trúlega komið í veg fyrir einhver flóð. Grindurnar stóðu sig betur en netin. Lagt hefur verið til að bæta við grindum í Tröllagili og Kristín Marta sagði til greina koma að skipta netum út fyrir grindur og ljóst af reynslunni að ekki verða sett upp ný net hérlendis. Eftir er að meta skemmdir sem kunna að hafa orðið á netum.

Íbúar á fundinum spurðu mikið út í þá staðreynd að bil eru milli varnargarða. Kristín sagði garða komna eða áformaða undir helstu upptakasvæðum snjóflóða sem séu gilin. Vissulega hafi í hrinunni komið snjóflóð úr klettabeltum en þau væru mun minni. Kristín og Harpa bentu á að varnir væru hannaðar hérlendis til að verja hús á hættusvæðum C og B. „Hættusvæði A er líka hættusvæði. Þar er líka rýmt við aftakaaðstæður,“ sagði Harpa meðan Kristín Harpa svaraði því til að ef byggja ætti um frekari varnir en hannaðar hafa verið þyrfti að breyta bæði hættumati og lögum.

Yfirfara þarf hættumatið í ljósi nýrra upplýsinga sem fengust með flóðunum í mars. Varnargarðar eru vissulega framundan Nesgili, þaðan sem flóðið sem féll á húsin kom. Eldri heimild er um flóð úr því í desember 1974 en það fór 200 metrum styttra en flóðið sem féll núna. Gert hefur verið ráð fyrir að flóð á borð við það sem kom um daginn falli á 700 ára fresti. „Það lýsir því að þarna sköpuðust óvenjulegar aðstæður.“

Mynd: Landsbjörg