Snjómokstursfólk ókrýndar hetjur Austurlands þessa síðustu og verstu

Á ferðalagi Austurfréttar í Neskaupstað, Eskifjörð, Reyðarfjörð og Egilsstaði í gærdag var það einn hlutur sérstaklega sem stóð upp úr í spjalli við fólk á ferli; hversu þakklátir íbúar voru því fólki sem sinnir snjómokstri. Gilti þá einu hvort um var að ræða íbúa Neskaupstaðar, Eskifjarðar, Reyðarfjarðar eða Egilsstaða.

Snjómokstur er vitaskuld hluti af almennri og nauðsynlegri þjónustu alls staðar í byggð á Norðurslóðum heimsins þar sem allra veðra er von. En það var nánast sama hvar tekið var niður að fólk hafði á orði mikla ánægju með snjómokstur á götum í kjölfar mikils fannfergis og hættuástands á stöku stöðum.

Í kjölfar mikillar snjókomu og snjóflóða í Neskaupstað fyrr í vikunni var nánast enginn vegur í bænum fær vegna ófærðar. Það var einungis fyrir mikla vinnu og elju snjómokstursfólks strax í kjölfarið sem tókst að koma björgunarsveitum á þá staði þar sem hjálpar var þörf eins fljótt og auðið var og eftir þessu var sannarlega tekið af hálfu íbúa þar. Einir fimm viðmælendur á förnum vegi höfðu á orði að fyrra bragði að snjómoksturfólkið væri sannarlega hetjur sem of lítið færi fyrir.

Sem dæmi um fórnfýsi snjómokstursfólks í Neskaupstað þá var það mat eins þeirra, Einars Sveins Sveinssonar, á mánudaginn var að ólíklegt væri að það tækist að opna allar götur bæjarins fyrr en um næstu helgi í besta falli. Raunin nú sú að allar götur í bænum nú að frátöldum götum á rýmingarsvæðum hafa verið mokaðar og eru opnar umferð.

Aðspurður viðurkennir Einar að það hafi vissulega verið langir dagar hjá þeim fjórum aðilum sem moka götur í Neskaupstað en hann segir að við þær aðstæður sem verið hafi uppi síðustu dægrin þá setji menn ekkert fyrir sig að vinna meira en annars. Við þær aðstæður sem ríkt hafi í bænum frá síðustu helgi sé númer eitt, tvö og þrjú að allir geri meira en þeir gera venjulega.

„Ég skal viðurkenna að það er aðeins farið að sljákka í manni en ekki svo að við séum neitt að gefast upp. Vissulega hafa þessir 15 til 16 tímar á sólarhring síðustu dagana tekið aðeins á en það er sannarlega ánægjulegt að fólk veitir okkar starfi athygli.“

Myndir frá Eskifirði og Neskaupstað. Mikið fannfergi á skömmum tíma alls staðar á Austurlandi en mokstursmenn vandanum vaxnir og vel og fljótt hefur gengið að opna flestar leiðir fyrir umferð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.