Skip to main content

Söfnuðust saman til að segja nei við fiskeldi í Seyðisfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. júl 2023 15:53Uppfært 14. júl 2023 16:02

Á annað hundrað manns safnaðist saman í miðbæ Seyðisfjarðar á samstöðufundi gegn áformum um fiskeldi í Seyðisfirði. Fólkið myndaði orðið nei og síðan 75% á bílastæðinu við Hótel Snæfell til að koma andstöðu sinni á framfæri.



„Afstaða Seyðfirðinga er skýr: Við segjum nei!“ sagði Benedikta Guðrún Svavarsdóttir, ein af forsvarsmönnum VÁ – félags um verndun fjarðar, en félagið skipulagði samstöðufundinn. Hún uppskar mikið lófaklapp fyrir vikið.

„Við viljum ekki að fallegi fjörðurinn okkar verði eyðilagður af sjókvíeldi,“ sagði Ásrún Mjöll Stefánsdóttir sem leiddi dagskrána í gær ásamt Benediktu.

Fundurinn hófst á því að fjöldi fólks stillti sér upp til að mynda orðið nei á bílastæðinu. Þar á eftir raðaði fólkið sér upp til að mynda 75%, en það er það hlutfall Seyðfirðinga sem sagðist mótfallið fiskeldi í firðinum í skoðanakönnun sem gerð var fyrir Múlaþing í vetur.

Magnús Guðmundsson, einn af ræðumönnum kom inn á vonbrigði sín við sameiningu sveitarfélagana. „Það er ekki tekið til vilja íbúanna, þeirra 75 prósenta sem eru á móti þessu en samráð við íbúa var eitt af því helsta og efst á blaði við sameininguna í Múlaþingi og það hefur bara alls ekkert gengið eftir.“

Auk heimafólks úr VÁ ávörpuðu fulltrúar frá Landvernd og Íslenska náttúruverndarsjóðnum samkomuna. Fjöldi tónlistarfólks kom fram, meðal annars Svavar Knútur og Kristjana Stefánsdóttir, DJ Ívar, GRÓA, Lottó og Rusa.

Þóra Bergný Guðmundsdóttir, arkitekt, þakkaði skipuleggjendum fyrir framtakssemi og eljusemi áður en hún beindi óánægju sinni að „norsku auðmönnunum og hlaupastrákunum þeirra á Íslandi,“ sem hún telur stýra þessum áformum.

Þátttakendur létu það ekki á sig fá þó kaldranalegt væri í veðri, norðanátt og vindgustir. Fólk var vel klætt og klárt í slaginn. Ræðumenn fóru stórum orðum um áformin og studdu við andstöðu sína með rökum, rannsóknum og tilllögum. Ræðumenn minntust á að þarna lægi sæstrengur við umheiminn, þröng siglingaleið, að bæjarbúar vildu ekki þennan mengandi iðnað við bæinn sinn og vildu heldur leita leiða til nýsköpunartækifæra í sátt við náttúru og menn.

Gestir voru hvattir til þess að leggja málstaðnum lið með kaupum á varning, kaffi eða pönnukökum úr þar til gerðri sjoppu til styrktar baráttu VÁ við ofangreind áform.

IMG 2938 Web
IMG 2948 Web
IMG 2950 Web
IMG 2951 Web
IMG 2957 Web
IMG 2958 Web
IMG 2960 Web
Photo 1372023 16 05 29 Web
Photo 1372023 16 16 13 Web
Photo 1372023 16 16 34 Web