Skip to main content

Sögu- og ljósmyndasýning Stríðsárasafnsins á túnið við Molann

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 17. maí 2023 16:09Uppfært 17. maí 2023 16:16

Staðfest er að sérstök sögu- og ljósmyndasýning Íslenska stríðsárasafnsins á Reyðarfirði verður sett upp á túninu við verslunarkjarnann Molann í sumar.

Bæjarráð samþykkti tillögu stjórnar Menningarstofu og Safnastofnunar þessa efnis en sem kunnugt er verður Íslenska stríðsárasafnið lokað gestum þetta sumarið. Það bæði vegna skemmda sem þar urðu í óveðrinu síðasta haust en einnig vegna lekavandamála sem upp komu snemma árs. Þar væri umrædd sýning áfram ef það tjón hefði ekki orðið.

Sýningarstaðurinn er að Ægisgötu 6 en þar er stórt tún sem sveitarfélagið á og nýtist vel til að vekja athygli vegfarenda um Ægisgötu og ekki síður þeirra sem gera sér ferð í Molann enda túnið mitt þar á milli. Hugmyndin er jafnvel að setja þar upp bekki og borð til að skapa skemmtilega stemmingu á sýningarsvæðinu.

Bæjarráð samþykkti ennfremur tillögu Menningarstofu og Safnastofnunar að tekið yrði á leigu rými á efri hæð Óseyrar 1a til að geyma safngripi Íslenska stríðsárasafnsins næstu misserin eða þangað til endurbætur hafa farið fram á safnhúsunum sjálfum og lekavandamál leyst.

Óveðursskemmdir og vatnsleki síðasta hálfa árið hafa sett strik í reikning Íslenska stríðsárasafnsins og það verður lokað í sumar. Sýning þess flyst utandyra. Mynd Austurland.is