Skip to main content

Sögulega mörg luku sveinsprófi í húsasmíði frá VA

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. jún 2023 15:49Uppfært 27. jún 2023 11:35

Tólf nemendur luku í vor sveinsprófi í húsasmíði frá Verkmenntaskóla Austurlands sem er sögulega mikið. Aðsókn hefur vaxið í greinina undanfarin ár sem og fleiri iðngreinar sem aftur birtist í fjölda innritana fyrir næsta ár. Kynning á verknámi í grunnskólum Fjarðabyggðar virðist þar eiga hlut að máli.


„Það er ánægjulegt að þessi stóri hópur hafi tekið sveinsprófið og að þetta séu allt nemar sem voru í húsasmíði hjá okkur sem náðu allir með ágætis einkunn,“ segir Eydís Ásbjörnsdóttir, skólameistari VA.

Nemendur geta lokið námi í húsasmíði við VA en Iðan fræðslusetur heldur utan um sveinsprófið sjálft. Það þýðir að nemendur þurfa ekki endilega að hafa lokið náminu á sama ári og þeir taka prófið. Eins er krafist ákveðins lágmarksfjölda til að leyfi fáist til að þreyta prófið í Neskaupstað.

Meðal þeirra sem luku sveinsprófinu voru mæðgin, Barbara Valerie Kresfelder og synir hennar Kári og Týr Kresfelder Haraldssynir.

Mikill áhugi hefur verið á húsasmíðanáminu síðustu ár. Fjölgað hefur um 59% frá árinu 2018. Ákveðið hefur verið að vera einnig með helgarkennslu í því næsta vetur í VA. Er það sérstaklega ætlað fólki sem vill afla sér þekkingar meðfram vinnu en í það verður 23ja ára aldurstakmark. Byggt er á góðum árangri í dreifnámi í rafvirkjun þar sem vinnustofur eru seinni part dags. Innritun í skólann er lokið en helgarviðbótin þýðir að hægt verður að bæta við fleirum og verður innritun í hana auglýst síðar.

Kynning á verknáminu eykur áhuga


Útskrifað er einu sinni á ári frá VA og í vor luku 46 nemendur námi við skólann. Útlitið fyrir næsta ár er gott því 41 nemandi úr tíunda bekk sótti um skólavist, sem er töluvert fleiri heldur en síðustu ár. Helmingur þeirra stefnir á nám á stúdentsbrautum. Í iðnnámið bætast einnig við eldri nemendur. Þar er húsasmíðin vinsælust en Eydís segir einnig mikla aðsókn í annað iðnnám svo sem rafvirkjun, vélstjórn og vélvirkjun.

Eydís telur áhugann ekki síst að þakka samvinnu skólans og sveitarfélagsins Fjarðabyggðar um eflingu iðnnáms. Síðustu tvo vetur hefur nemendum í 9. og 10. bekkjum grunnskóla Fjarðabyggðar verið boðið vikulega í VA yfir átta vikna tímabil. Það hefur meðal annars skilað 35% aukningu í húsasmíðanámið á þessum tíma. Í kynningarnáminu getur hver nemandi getur valið sér tvær greinar. „Þetta hefur verið jákvætt verkefni sem við höfum fundið mikla almenna ánægju með,“ segir Eydís.

Ánægjan sést í könnunum sem gerðar hafa verið með verknámið. Rúm 70% nemenda segjast mjög eða frekar ánægðir með þessar kynningar og yfir 90% foreldra.

Mynd: VA