Sólarhring getur tekið að koma þolanda í sérhæft athvarf utan Austurlands
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 20. maí 2025 16:29 • Uppfært 20. maí 2025 16:30
Betri samvinna viðbragðsaðila í viðbrögðum við heimilisofbeldi var markmið skrifborðsæfingar sem haldin var á Reyðarfirði nýverið. Lögreglustjóri segir að huga þurfi sérstaklega að því hvernig hlúð sé að þolendum þar sem Austurland sé landfræðilega fjarri ýmsum sértækum úrræðum.
Æfingin var haldin undir formerkjum Öruggara Austurlands, samráðsvettvangs sem stofnaður var árið 2023 til að samhæfa viðbrögð og forvarnir í ýmsum málefnum. Lögreglustjórinn á Austurlandi leiðir samstarfið.
Á æfingunni kom meðal annars fram að erfitt getur verið að miðla upplýsingum í heimilisofbeldismálum milli þeirra aðila sem að þeim þurfa að koma. Hins vegar getur þurft að koma upplýsingum á milli því ákveðið mynstur getur gefið viðbragðaðilum hugmynd um hver staðan á heimilinu sé.
„Við erum alltaf að glíma við trúnað í okkar störfum. Á sumum stöðum, svo sem á milli lögreglu og barnaverndar, eru heimildir til að tala saman en á öðrum stöðum er það flóknara. Til þess þyrfti þá lagabreytingar en öll okkar samskipti miða fyrst og fremst að hagsmunum þeirra sem við erum að þjónusta,“ segir Margrét María Sigurðardóttir, lögreglustjóri.
Mikilvægt að kæra
Hún hvetur til þess að heimilisofbeldi sé kært því þótt það endi ekki með dómi veiti það lögreglu mun rýmri heimildir til íhlutunar og það getur skipt máli.
„Fólki finnst erfitt að kæra og heimilisofbeldi er flókið því það á sér stað á milli tengdra aðila, oft í nánum samböndum. En það er mikilvægt að takast á við slík mál sem fyrst þannig að þau verði ekki enn flóknari og erfiðari.
Lögreglan hefur mörg verkfæri þegar mál eru komin til hennar. Kerfin fara þá að tala saman, svo sem lögregla og félagsþjónusta og barnavernd. Fleiri koma svo að eftir því sem okkur tekst betur til í samvinnu eins og þeirri sem hér er til umræðu, svo sem heilbrigðisþjónustan, prestar mögulega og fleiri. Öll kerfi eru þá farin að flagga, öll hafa skýra verkferla og öll miða að því að stöðva mynstur sem farið er að teiknast upp, eða koma í veg fyrir fleiri atvik.
Vildum gjarnan hafa sérhæfða þolendamiðstöð
Á æfingunni kom líka fram að skoða þurfi sérstaklega hvernig þolendur séu studdir innan Austurlands þar til þeir komist í sértæk úrræði utan fjórðungs.
„Við vildum gjarnan hafa sérhæfða þolendamiðstöð, eins og er á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og Selfossi. Það sama gildir um Kvennaathvarfið. Við erum langt frá þessum björgum.
Það kom fram mjög mikilvæg ábending um að það geti liðið sólarhringur frá því að kallað er út vegna atburðar þar til viðkomandi kemst í athvarf syðra. Þann tíma þyrfti eitthvað að vera til staðar hér, hvort sem það væri hótel sem við hefðum aðgang að eða slíkt. Ég hef ekki lausnina en þetta eru atriði sem við þurfum að skoða.
Heimilisofbeldi er mikið alvöru mál, hvort heldur sem slík mál snúa að fullorðnum eða börnum. Huga verður að börnum á meðan unnið er úr málum þeirra fullorðnu. Annað sem við þurfum að huga að er aðgangur til að mynda að neyðarfjölskyldum fyrir slík tilvik,“ segir Margrét María.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.