Skip to main content

Sóttu um rúmlega helmings alls fjármagns í nýjum jarðhitasjóði stjórnvalda

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. maí 2025 10:12Uppfært 13. maí 2025 11:16

Veitufyrirtæki Múlaþings, HEF-veitur, hefur lagt inn umsókn um vel rúmlega 500 milljóna króna styrk úr nýstofnuðum sjóð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Sjóðurinn skal auðvelda sveitarfélögum eða orkufyrirtækjum leit að og nýtingu jarðhita á köldum svæðum landsins.

Opnað var nýverið fyrir styrkumsóknir vegna átaksins Jarðhiti jafnar leikinn en það var eitt fyrsta verk nýs umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Jóhanns Páls Jóhannssonar eftir að hann tók við embætti að koma því á laggirnar. Skal gegnum sjóðinn þann verja einum milljarði króna í verkefnið næstu þrjú árin.

Það snýst um að stórauka framlög til leitar og vinnslu jarðhita á köldum svæðum landsins en stór hluti Austurlands er einmitt á slíku svæði. Sem afleiðing af því er raforkureikningur fjölda austfirskra heimila og fyrirtækja í hæstu hæðum á landsvísu enda þarf að hita húsin mörg með rafmagni og rafmagnið hefur hækkað jafnt og þétt í verði síðustu misserin.

Glúmur Björnsson, jarðfræðingur hjá HEF-veitum, staðfestir við Austurfrétt að lagðar hafi verið fram umsóknir um vel rúmlega hálfan milljarð króna í sjóðinn en umsóknarfrestur rennur út þann 1. júní næstkomandi.

Við hjá HEF sóttum styrki í átakið Jarðhiti jafnar leikinn sem stjórnvöld kynntu nýverið. Þar er um að ræða styrki til þróunar og hagkvæmni tengt fjarvarmaveitunni á Seyðisfirði lang veigamestir en umsóknum tengdar því verkefni í heild sinni er upp á rúmar 500 milljónir króna enda gífurlega stórt verkefni og mikið í húfi. Einnig sóttum við um styrki fyrir smærri verkefni uppá fáa tugi milljóna. Við erum þegar að nýta annars konar styrk vegna jarðhitaleitar við Djúpavog og því var ekki sótt um styrk þar sem hann er ekki fullnýttur.

Eins og staðan er í dag eru það nánast aðeins þéttbýlin á Egilsstöðum og í Fellabæ og á Eskifirði auk nokkurra kílómetra vegalengdar að Eiðum sem njóta hitaveitu á Austurlandi öllu. Mynd HEF-veitur