Skip to main content

Sparað hjá SAust: Kjör starfsmanna skerðast

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. okt 2010 12:57Uppfært 08. jan 2016 19:21

Soffía Lárusdóttir, forstöðumaður svæðisskrifstofu með málefnum fatlaðra á Austurlandi (SAust) segir að einhverjir starfsmenn þurfi að taka á sig kjaraskerðingar til að niðurskurður á ríkisframlögum til stofnunarinnar gangi eftir. Færsla á þjónustu til sveitarfélaga getur skapað hagræðingu.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar verður skorið niður um tæpar 20 milljónir í framlögum til málefna fatlaðra á Austurlandi. Ríflega 1,5 milljón snýr að Sveitarfélaginu Hornafirði sem hefur verið  með samning við félags- og tryggingamálaráðuneytið um þjónustu við fatlaðra.

Einnig fellur út 1,4 króna framlag ætlað í framkvæmdir við lóð og aðgengismál við Jónsver, vinnustað fyrir fólk með skerta starfsorku á Vopnafirði.

Eftir standa 16,7 milljónir sem SAust tekur á sig.

„Það liggur fyrir að hluta þessa samdráttar verður mætt með-breytingum á rekstrarformi þjónustunnar sem leiðir til fækkunar á stjórnunarstöðum og um leið launalækkunum hjá einstökum starfsmönnum,“ segir Soffía í samtali við Agl.is.

„Eftirvinnu verður haldið í lámarki, svo sem útköllum vegna veikinda starfsmanna og ferða- og námskeiðskostnaður starfsmanna og ýmiss annar rekstrarkostnaður verður lækkaður.“

Soffía segir mögulegt að með færsla þjónustu frá SAust til sveitarfélaga um áramótin leiði til stjórnsýslulegrar hagræðingar.

„Í samkomulaginu á milli ríkisins og sveitarfélaga um fjárhagsramma tilfærslu þjónustu við fatlaða sem undirritaður var 6. júlí sl. er gert ráð fyrir fjármunum á fjárlögum árið 2011 vegna notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar og vegna breytingakostnaðar, tilfærslu, aðlögunar og útfærslu þjónustunnar þannig að áætlað er að þessir fjármunir komi aftur inn í málaflokkinn.“