Skip to main content

Sparisjóður Norðfjarðar býður Stöðfirðingum í viðskipti

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. sep 2010 19:22Uppfært 08. jan 2016 19:21

sparisjodur_norrdfjardar.jpgForsvarsmenn Sparisjóðs Norðfjarðars skoða hvaða þjónustu þeir geti veitt Stöðfirðingum. Mikil reiði hefur verið á staðnum síðan Landsbankinn lokaði afgreiðslu sinni þar í byrjun mánaðarins. Fulltrúar sparisjóðsins verða á Stöðvarfirði á morgun.

 

Á íbúafundi á Stöðvarfirði fyrir skemmstu var rætt um hvort Sparisjóður Norðfjarðar gæti opnað útibú á staðnum. Bæjarfulltrúar bentu á að sveitarfélagið Fjarðabyggð ætti nú tæplega fjórðung hlutfjár og legði að sparisjóðnum að rækja samfélagslega skyldu sína.

Vilhjálmur G. Pálsson, sparisjóðsstjóri, segir að ekkert hafi verið ákveðið að málið verði skoðað í stjórn sjóðsins í samvinnu við Fjarðabyggð. „Við höfum sent út dreifibréf í öll hús á Stöðvarfirði þar sem við kynnum sparisjóðinn og bjóðum fólk velkomið í viðskipti.“

Stöðfirðingum er boðið að hitta starfsfólk sparisjóðsins á morgun, fimmtudaginn 9. september, að Fjarðabraut 40a á Stöðvarfirði frá klukkan 14:00 – 18:00.

Afgreiðsla Landsbankans lokaði 1. september síðastliðinn. Um 160 Stöðfirðingar skrifuðu undir mótmælabréf þar sem ákvörðuninni var mótmælt.