Sprengiefni fannst í gömlu húsi á Seyðisfirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 13. jún 2025 11:42 • Uppfært 13. jún 2025 11:42
Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð til eftir að poki með eldgömlu sprengiefni fannst við tiltekt í húsi á Seyðisfirði. Talsverður viðbúnaður var á staðnum og yfirlögregluþjónn segir að fyllsta ástæða hafi verið til að fara að öllu með gát.
Sprengiefnið fannst í húsinu Sólbakka, utarlega í kaupstaðnum sunnanverðum. Samkvæmt Húsasögu Seyðisfjarðar var húsið upphaflega byggt árið 1893 af norska athafnamanninum Otto Wathne fyrir bróður hans Carl.
Það hefur staðið mannlaust eftir skriðurnar sem féllu á Seyðisfjörð í desember 2020 því það er á hættusvæði. Sveitarfélagið Múlaþing eignaðist húsið og seldi það í því ástandi sem það var til flutnings.
Nýir eigendur voru að taka til í húsinu þegar þeir rákust á strigapoka með einkennilegu efni á háaloftinu. Þeir létu lögregluna vita sem í framhaldinu kom á svæðið og tryggði það. Sérsveitin var kölluð til og eyddi efninu með því að sprengja það í námu innan við kaupstaðinn daginn eftir. RÚV greindi fyrst frá og sýndi frá sprengingunni í kvöldfréttum.
Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi, segir að áætlað sé að um 2,5 kg af glýseríni hafi verið að ræða. Efnið hafi verið hættulegt meðan það lá óáreitt á háaloftinu en það hafi breyst um leið og farið var að eiga við það. „Efnið var orðið mjög gamalt og því viðkvæmara fyrir vikið. Þess vegna var full ástæða til að gæta fyllsta öryggis,“ segir hann.
Ekki er vitað hvaðan efnið kom eða hvenær það var fært inn í húsið en talið er að það sé áratuga gamalt, jafnvel frá síðari heimsstyrjöld. Aðspurður svarar Kristján Ólafur að sjaldgæft sé að sprengiefni finnist í gömlum byggingum.