Skip to main content

Sprengignýr raskar ró Seyðfirðinga frá og með næstu viku

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. apr 2022 11:36Uppfært 27. apr 2022 10:43

„Á meðan ríkið er opið og kvikmyndasýningar í Herðubreið falla ekki niður þá held ég að Seyðfirðingar kippi sér lítið upp við þessi læti,“ segir Benedikt Ólason, verkefnisstjóri hjá Héraðsverk, og vísar þar í velþekktan brandara heimamanns af öðru tilefni.

Framkvæmdir við nýja snjóflóðavarnargarða fyrir ofan Seyðisfjarðarbæ eru hafnar en þær framkvæmdir munu standa yfir fram til hausts 2025 en Héraðsverk sér um alla jarðvinnu auk uppsetningar snjóflóðavarnanna sjálfra þegar þar að kemur.

Hluti af þeim framkvæmdum er að losa berglög á svæðinu og til þess þarf að sprengja og fyrstu sprengingarnar áætlaðar á mánudag eða þriðjudag eftir atvikum. Með tilliti til nálægðar við byggðina munu lætin vart fara hjá bæjarbúum en Benedikt segir allt gert til að lágmarka ónæði af þessum völdum.

„Við ætlum að reyna að byrja á mánudaginn kemur en það gæti orðið á þriðjudag sem við sprengjum fyrsta sinni. Þetta verður í Skaganámu og það svona 250 til 300 metrar í byggð þannig að fólk mun verða þessa vart þó við reynum að lágmarka bæði hávaða og titring eins og kostur er.“

Þrjú löng hljóðmerki verða gefin úr loftlúðri fimm mínútum áður en sprengt verður í hvert sinn en Benedikt segir að ekki verði meira sprengt en einu sinni á dag og helst með eins dags millibili ef áætlanir standast. Þá verður sprengt með eins vægum hleðslum og kostur er til að lágmarka titring. Öll umferð nálægt svæðinu verður bönnuð eftir að hljóðmerkin hafa verið gefin en  sprengt verður reglulega á svæðinu næstu misserin eftir þörfum milli klukkan 10 og 18 á daginn.

Mynd: Snjóflóðavarnargarðar fyrir ofan Neskaupstað. Svipaðir garðar rísa í Seyðisfirði á næstu árum.