Skip to main content

Spurningakeppni fermingarbarna á Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 29. jan 2011 19:51Uppfært 08. jan 2016 19:22

utsvar_fljotsdalsherad_web.jpgÁ morgun fara fram úrslit í spurningakeppni fermingarbarna á Austurlandi. Keppt verður í Reyðarfjarðarkirkju en þetta er í fyrsta sinn sem keppnin er haldin.

 

Úrslitakeppnin hefst með fjölskylduguðsþjónustu kl. 14:00 í Reyðarfjarðarkirkju, þar sem keppendur liðanna taka virkan þátt, lesa ritningarlesta og flytja bænir. Undanúrslit og úrslit fara svo fram í safnaðarheimilinu eftir guðsþjónustuna.

Spurningarkeppnin hófst á haustmánuðum með undankeppni þar sem 14 lið tóku þátt af öllu Austurlandi. Í undanriðlum var keppnin oft hnífjöfn og spennandi og munurinn í lokin oft aðeins eitt stig. Þau lið sem hafa unnið sér keppnisrétt í úrslitunum eru frá Egilstöðum, Vopnafirði, Reyðarfirði og sameiginlegt lið frá Breiðdalsvík og Stöðvarfirði. Spurningar keppninnar eru almenns eðlis, en einnig úr fræðsluefni fermingarbarnanna og Biblíunni.

Keppnin er haldin á vegum Prestafélags Austurlands og er liður í fermingarstarfi kirkjunnar á Austurlandi.  Árlega eru haldnar fermingarbúðir í Kirkjumiðstöðinni á Eiðum. Fermingarbörnin taka þátt í fermingarbarnasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar og fá heimsókn frá  Afríku. Þá er foreldrum og börnum boðið upp á fjölbreytta fræðslu, svo sem um trúarstef í kvikmyndum og samskipti foreldra og unglinga.

Dómari keppninnar er Stefán Bogi Sveinsson. Öllum er velkomið að fylgjast með keppninni.