Sr. Jóna Kristín: Finn sárt til með íbúum Grindavíkur

Sr. Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, sóknarprestur í Austfjarðaprestakalli, segist finna ákaft til með íbúum Grindavíkur sem bíða þess sem verða vill vegna eldgosahættu við bæinn. Hún bjó þar í um 20 ár og á þar enn bæði fjölskyldu og vini sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín.

„Það hefur verið erfitt að fylgjast með þessu úr fjarlægð. Staðurinn er mér mjög kær, bæði fólkið og byggðin. Ég hef gengið í gegnum margt með þessu fólki og á þaðan góðar minningar og vini. Ég finn sárt til með íbúum,“ segir Jóna Kristín.

Vinkona bauð fjölskyldu dótturinnar skjól


Hún bjó tæp 20 ár í Grindavík, var lengst af sóknarprestur þann tíma og sat um tíma í bæjarstjórn. Elsta dóttur hennar býr þar með fjölskyldu sinni.

„Það er dásamlegt hvað hjartslátturinn verður kærleiksríkur og góður hjá Íslendingum þegar svona mikið gengur á. Við verðum eins og ein fjölskylda, eins og forsetinn orðaði það. Vinkona mín hafði samband strax á föstudagskvöld og sagði sína íbúð í Vesturbæ Reykjavíkur lausa á næstunni ef mitt fólk þyrfti húsnæði. Þau þáðu það. Þar skammt frá eru fleiri dætur mínar og elsta barnabarnið. Það er gott af þeim að vita af þeim þarna saman.

Dóttir mín og tengdasonur voru erlendis á föstudaginn en ömmu strákarnir hjá næstelstu dótturinni í Reykjavík. Þau lentu því ekki í þessum flótta á föstudagskvöldið. Í gær gátu þau náð í bílana sína og nauðþurftir.“

Skiptir máli að Grindvíkingar geti hist


Jóna Kristín hefur einnig heyrt í vinkonum og vinum úr Grindavík og segir að þeim sé þakklæti fyrir aðstoð og hlýhug efst í huga. „Það eru allir þakklátir fyrir viðbrögðin. Við erum með tæplega 4000 manns á hrakhólum. Í annað skipti þarf að rýma byggð vegna eldsumbrota og það er mikið lán hversu vel það hefur gengið í bæði skiptin, sem er það sem mestu skiptir. Við þekkjum það vel Íslendingar hversu miklu máli samstaðan skiptir og hvað allir eru reiðubúnir að opna húsnæði og heimili sín.

Ég horfði á þessa indælu stund í Hallgrímskirkju, sem mér fannst afskaplega falleg og styðjandi. Ég veit að það stendur til að finna stað þannig að Grindvíkingar geti komið saman og stutt hvern annan. Það skiptir miklu máli.“

Jóna segir leiðtoga byggðarlagsins og allir viðbragðsaðilar hafa staðið sig vel. „Við erum einstaklega heppin með það fólk sem fer fyrir almannavörnum og er í vandasömum störfum í vísindageiranum. Forystufólk bæjarins hafa sýnt yfirvegun og talað af öryggi. Þar finnst mér til dæmis bæjarstjóra og sóknarpresti hafa tekist vel.“

Biður að byggðin fari ekki verr


En þótt jarðskjálftarnir hætti í bili án þess að eldgos komi upp er ljóst að byggðin er illa farin. Myndir frá Grindavík sýna að sprunga liggur í gegnum bæinn, meðal annars þétt við kirkjuna. „Það er afskaplega átakanlegt að horfa á þessar myndir og þessar hamfarirnar sem við sjáum ekki enn fyrir endann á. Við lifum mjög einkennilegan tíma og erum enn og aftur minnt á hve smá við erum gagnvart náttúruöflunum. Maður biður og vonar að byggðin fari ekki verr.

Það getur enginn ímyndað sér, nema þau sem hafa reynt það, að standa í þeim sporum að þurfa að yfirgefa heimili sitt og jafnvel allt það sem hefur tengst hinu daglega lífi og starfi. Það er mikið áfall. Það eina sem hægt er að gera er að taka dag í senn núna og að fjölskyldur, vinir og samferðafólk, haldi vel utan um hvert annað.

Sérstaklega að hafa í huga börnin og ungmennin i þessari stöðu. Skrefin framundan eru óljós og margt ófyrirsjáanlegt. Dýrmætust eru mannslífin og því svo þakkarvert að íbúar komust í burtu. Nú leggjumst við öll á eitt með Grindvíkingum með vonina, kærleikann og trúna á alla möguleika lífsins að leiðarljósi. Guð blessi íbúa Grindavíkur og byggðina sem standa hjarta mínu nær.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.