Sr. Kristín Þórunn kveður Egilsstaðaprestakall

Sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir, prestur í Egilsstaðaprestakalli kveður söfnuð sinn á sunnudag en hún hefur verið valinn nýr prestur í Skálholtsprestakalli. Leit er að hefjast að arftaka hennar.

Tilkynnt var í vikunni að Sr. Kristín Þórunn hefði verið valin úr hópi fimm umsækjenda í Skálholtsprestakalli. Hún predikar við kvöldmessu í Egilsstaðakirkju klukkan 20:00. Í frétt frá prestakallinu kemur fram að það verði hennar síðasta guðsþjónusta innan þess.

Kristín Þórunn var valin til starfa í Egilsstaðaprestakalli árið 2022. Hún er fædd í Neskaupstað árið 1970, þar sem foreldrar hennar, sr. Tómas Sveinsson og Unnur Anna Halldórsdóttir djákni þjónuðu en hún er elst af fimm börnum þeirra. Hún ólst að mestu upp í Reykjavík en hefur sinnt prestsþjónustu í Kjalarnessprófastsdæmi, Garðaprestakalli, Laugarnesprestakalli, í lúthersku og anglikönsku kirkjunni í Genf, og í Egilsstaðaprestakalli.

Sóknarnefndir vinni þarfagreiningu


Samkvæmt upplýsingum frá Biskupsstofu er leit að arftaka hennar að hefjast. Samkvæmt lögum Þjóðkirkjunnar er þarfagreining fyrsta skrefið. Hún felur í sér að fulltrúar sóknarnefnda innan prestakallsins móta ramma, eða starfslýsingu, fyrir skyldur væntanlegs prests, til dæmis í barna- og æskulýðsstarfi, predikanir, helgihald eða öldrunarþjónustu. Því verki á að ljúka á tveimur vikum.

Í framhaldinu er starfið auglýst. Þegar umsóknarfrestur er liðinn kemur til kasta valnefndar, sem skipuð er fulltrúum sókna, prófasti og fulltrúa biskupsstofu. Nefndin á að vera skipuð minnst sjö einstaklingum, þar af fimm fulltrúum sókna. Möguleiki er að hafa fleiri fulltrúa í nefndinni, en einnig er ákvæði um að fjöldi sóknarbarna ráði vægi sókna í valnefndinni. Alls heyra 14 sóknir á Fljótsdalshéraði, Seyðisfirði og Borgarfirði undir Egilsstaðaprestakall.

Vonast er til að niðurstaða valsins verði ljós fyrir áramót. „Þetta er hið hefðbundna ferli sem fer í gang núna við ráðningu nýs prests á Egilsstöðum. Ráðning presta er eitthvað sem kirkjan tekur mjög alvarlega og það er vandað til verka við þarfagreininguna,“ segir Heimir Hannesson, samskiptastjóri Þjóðkirkjunnar.

Mynd: Þjóðkirkjan/Árni Svanur Daníelsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.