Séra Hólmgrímur: Setið sem lamaður undir fréttaflutningi um biskupsmál

hofteigskirkja.jpgSéra Hólmgrímur Bragason, héraðsprestur í Austfjarðaprestakalli, segist hafa setið sam lamaður undir fréttaflutningi undanfarinna vikna af kynferðismálum fyrrverandi biskups. Hann þakkar konunum fyrir það hugrekki sem þær hafa sýnt með að segja frá reynslu sinni.

 

„Maður hefur setið sem lamaður hvað eftir annað yfir fréttaflutningnum og fundið til með þeim konum sem stigið hafa fram og sagt sögu sína. Maður spyr sig aftur og aftur hvernig gat þetta gerst og af hverju var þeim ekki trúað á sínum tíma? Það er eins og maður sé að fara í gegnum sorgarferli, hinar ýmsu tilfinningar ráðast að manni án þess að gera boð á undan sér,“ segir Hólmgrímur í samtali við Austurgluggann.

Hann hrósar konunum fyrir mikið hugrekki. „Það er ekki annað hægt en að dást að hugrekki og persónuleika þessara kvenna sem gefið hafa kirkjunni óvænt tækifæri til þess að biðja þessar hetjur afsökunar um leið og kirkjan fagnar þessu tækifæri til þess að gera upp þetta hörmulega mál. Hugrekki þessara kvenna og allra þolenda kynferðisofbeldis er svo dýrmætt að seint eða aldrei er hægt að þakka það nóg.“

Hólmgrímur segir að svara þurfi því hvers vegna málefni kvennanna fengu ekki þá „aðhlynningu, stuðning og eftirfylgd sem þau áttu svo sannarlega skilið að fá hjá kirkjunni sinni?“

Ákvörðun um óháða rannsóknarnefnd sé þar skref í rétta átt. „Kirkjan skuldar fórnarlömbunum í þessu hræðilega máli að rannsóknin verði algerlega heiðarleg!“

Rætt er við Hólmgrím og fleiri austfirska presta um málefni kirkjunnar í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.