SSA: Óásættanleg vinnubrögð við ráðningu nýs framkvæmdastjóra

ImageUmsækjendur um starf framkvæmdastjóra Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) gagnrýna harðlega ráðningarferlið. Björn Hafþór Guðmundsson, formaður, tekur við starfinu. Í auglýsingu kom fram að hann tæki við og veitti upplýsingar um starfið. Björn Hafþór segist engar umsóknir hafa opnað og hætt afskiptum af ráðningarferlinu um leið og hann ákvað að sækja um sjálfur.

 

Austurglugginn fjallar um málið í fréttaskýringu í vikunni. Þeir umsækjendur sem blaðið ræðir við segjast ekki efast um hæfi Björns Hafþórs heldur sé ferlið ekki í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Þeir gagnrýna einnig að enginn umsækjenda hafi verið boðaður í viðtal og að mánaður sé í að ný stjórn taki við SSA sem geti orðið töluvert ólík fráfarandi stjórn í ljósi úrslita sveitarstjórnakosninganna í vor.

Haft er eftir Ólafi Áka Ragnarssyni, forvera Björns Hafþórs í starfi sveitarstjóra Djúpavogshrepps, og einum umsækjenda að ráðningin sé „fullkomlega í ósamræmi við kröfu almennigs um breytta og bætta stjórnsýslu.“

Björn Hafþór segist ekki hafa íhugað að sækja um fyrr en ákveðnir aðilar, meðal annars stjórnarmenn SSA, skoruðu á hann að sækja um. Framundan eru miklar skipulagsbreytingar innan sambandsins sem menn hafi viljað fylgja eftir.

Hann segist hafa hætt afskiptum af ráðningarferlinu þegar hann ákvað sjálfur að sækja um. Hann hafi rætt við þrjá um starfið, aðeins einn þeirra hafi fylgt umsókn sinni eftir.
„Ég opnaði engar umsóknir og sendi þær beint til varaformannsins og var í raun eingöngu póstkassi í þessu máli.“

Stjórnarmenn SSA viðurkenna að tímasetning umsóknarinnar hafi verið óheppileg en virðast sammála um að Björn Hafþórs hafi verið hæfastur þeirra sem sóttu um, meðal annars vegna reynslu hans innan SSA.

„Það kom öllum innan stjórnarinnar á óvart að Björn skyldi sækja um enda hafði hann tilkynnt að hann væri hættur afskiptum af sveitarstjórnarmálum“ sagði Valdimar O. Hermannsson, bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð og stjórnarmaður í SSA.

Tíu sóttu um og segir Austurglugginn að tveir hafi hætt við eftir að Björn Hafþór tilkynnti um umsókn sína. Björn Hafþór tekur við starfinu 1. október þegar Þorvaldur Jóhannsson hættir sökum aldurs, en hann hefur verið framkvæmdastjóri í tólf ár.

Nánar er fjallað um málið í Austurglugganum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.