Staða lögreglustjóra auglýst innan tíðar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 22. maí 2025 09:13 • Uppfært 22. maí 2025 09:15
Til stendur að auglýsa stöðu lögreglustjórans á Austurlandi innan tíðar. Stjórn embættisins er tímabundið sinnt frá Norðurlandi. Þingmaður Miðflokksins gerði lítið úr embættinu á Austurlandi í umræðum á Alþingi á mánudag.
Margrét María Sigurðardóttir, lögreglustjóri, var í byrjun apríl skipuð sem fyrsti framkvæmdastjóri Mannréttindastofnunar Íslands, en stofnunin varð til um síðustu áramót.
Samhliða því var Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, sett lögreglustjóri á Austurlandi. Hún hefur gegnt embættinu síðan.
Fyrir viku greindi Morgunblaðið frá því að Úlfari Þormóðssyni, lögreglustjóra á Suðurnesjum, hefði verið boðin staðan, samhliða því að dómsmálaráðherra ákvað að skipa hann ekki áfram til starfa á Suðurnesjum. Úlfar afþakkaði boðið og hætti störfum strax í kjölfarið.
Í svari við fyrirspurn Austurfréttar segir Jakob Birgisson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, að starf lögreglustjórans á Austurlandi verði auglýst von bráðar.
„Vel útfærð sókn sem varð að vandræðalegu sjálfsmarki“
Möguleg vistaskipti Úlfars hafa verið til umræðu á Alþingi síðustu daga. Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins úr Suðurkjördæmi og fyrrum lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, gerði lítið úr embættinu á Austurlandi í fyrirspurnatíma við Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, dómsmálaráðherra á mánudag.
„Það hefur komið fram að hún hafi boðið honum starf á Austurlandi. Átti sem sagt að senda lögreglustjórann í einhvern Lokinhamradal þar sem hæstvirtur ráðherra Viðreisnar gat ekki þolað að landamæraeftirliti eyþjóðarinnar væri sinnt af einhverri vigt á þessum mikilvægustu landamærum landsins?”
Eydís Ásbjörnsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar frá Eskifirði, gagnrýndi Karl Gauta fyrir þessi orð í liðnum störf þingsins í gær. Hún sagði kappið hafa borið þingmanninn ofurliði og það sem í hans huga hefði trúlega hljómar fyrirfram eins og „vel útfærð sókn“ hefði reynst „lítið annað en vandræðalegt sjálfsmark.“ Hún sagði þetta undarlega nálgun frá þingmanni af landsbyggðinni og með reynslu af lögreglumálum.
„Lokinhamradalur er fallegur, friðsæll og einstakur dalur á Vestfjörðum og á allt annað skilið en að vera táknmynd fyrir einhverja ímyndaða endastöð embættismanna sem gefið er sterkt til kynna að sé með einhverjum hætti ómerkileg.
Í þessi tilviki var embættismanninum auk þess boðið starf á Austurlandi. Við skulum bara segja það hreint út: Austurland er ekki afskekkt horn heldur mikilvægt svæði. Meðal annars eru þar hafnir og flugvellir þar sem mikilvægt landamæraeftirlit fer fram. Þar er öflugt samfélag sem skilar miklum arði inn í þjóðarbúið og ekki síst fjölbreyttu löggæsluhlutverki,“ sagði hún.