Skip to main content

Staðan metin á veginum til Mjóafjarðar í lok dags

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. sep 2023 13:37Uppfært 21. sep 2023 13:38

Vegurinn til Mjóafjarðar er lokaður fyrir almennri umferð eftir miklar skemmdir sem urðu á honum í úrhellisrigningu á Austfjörðum í byrjun vikunnar. Vegagerðin vinnur að viðgerðum en ekki er fyllilega ljóst hvenær leiðin verður opnuð á ný.


„Vegurinn fór í sundur og vatn rann víðar yfir hann. Síðan eru skörð við ræsi. Það urðu meðal annars skemmdir niður á Eyvindardal,“ segir Sveinn Sveinsson, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Austurlandi.

Vegurinn hefur verið lokaður síðan á þriðjudag en þá gerði mikla rigningu eystra. Sveinn segir unnið að viðgerðum á 2-3 stöðum í dag. Staðan verði metin í lok dags en ef vel gengur þá verður hægt að opna fljótlega.

Lengri tíma mun þó taka að lagfæra veginn út á Dalatanga. Þar fór fylling úr veginum á 20-30 metra og niður í sjó þannig gat stendur eftir í veginum. Hægt er að læðast framhjá því á mikið breyttum bílum en viðgerð fyrir almenna umferð tekur lengri tíma. „Við skoðum hvernig það verður leyst.“